18. sep 2018

Mikið framkvæmdasumar hjá Norðurorku

Sumarið 2018 hefur verið mikið framkvæmdasumar hjá Norðurorku og ber þar hæst annars vegar fyrsta verkáfanga í svokallaðri Hjalteyrarlögn og hins vegar byggingu hreinsistöðvar fráveitu í Sandgerðisbót.

Hjalteyrarlögn
Það hefur ekki farið framhjá vegfarendum að Norðurorka hefur verið í umfangsmiklum framkvæmdum við Glerárgötu/Hörgárbraut í sumar. Unnið hefur verið að því að leggja svokallaða Hjalteyrarlögn frá dælustöð við Glerártorg út úr bænum og er hún nú komin í jörð norður fyrir gatnamót Hlíðarbrautar/Hörgárbrautar. Þó er eftir að grafa lögnina undir Glerá og er áætlað að gera það síðar í haust þegar dregur úr vatnsrennsli árinnar.

Anton Benjamínsson, verkefnastjóri Hjalteyrarverkefnis, segir að framkvæmdin sé yfirgripsmikið verk og fyrsti áfangi þess innan bæjarmarka Akureyrar hafi verið nokkuð snúinn vegna umferðar og óvissu með legu eldri lagnakerfa í bænum. Almennt hafi þó verkið gengið vel og vegfarendur sýnt framkvæmdinni skilning.
Hjalteyrarlögnin er áfangaskipt verkefni og er nú unnið að hönnun næsta áfanga sem Anton segir að verði lögn frá Arnarnesi við Hjalteyri í átt til Akureyrar. Gert sé ráð fyrir að næsta sumar nái hún frá Arnarnesi að Ósi, skammt norðan Hörgár, eða um 6 km leið og því sem upp á vanti til Akureyrar verði skipt í tvo áfanga.

Hin nýja Hjalteyrarlögn er 500 mm í þvermál. Fyrir er 300 mm lögn. Núverandi lögn ber ekki allt það heita vatn sem bærinn þarf á álagstímum. Nýja lögnin mun því tryggja afhendingarörygggi á heitu vatni á Akureyri til næstu ára og áratuga og er í raun hrein viðbót þar sem gamla lögnin verður áfram nýtt. „Þrátt fyrir að eftir um eitt ár verði ekki búið að leggja þessa nýju og sverari lögn alla leið til Akureyrar verður þá engu að síður unnt að dæla meira af heitu vatni til bæjarins en nú er hægt,“ segir Anton.

Vinnsla á heitu vatni var hafin á Arnarnesi fyrir sextán árum og þar eru nú tvær vinnsluholur sem gefa um 60% af því heita vatni sem notað er á Akureyri. Síðastliðið vor var þriðja holan boruð á Arnarnesi og var hún hugsuð sem varahola. Holan stóð fyllilega undir væntingum og er ljóst að það viðbótarvatn sem þarf inn á kerfið á Akureyri á næstu árum mun koma frá Arnarnesi en almennt má segja að aukin vatnsnotkun á ári sé nálægt 5 sekúndulítrum. Norðurorka hefur síðan möguleika á því í framhaldinu að nýta jarðhitasvæði nokkrum kílómetrum norðar við Eyjafjörð, í landi Ytri-Víkur/Syðri-Haga á Árskógsströnd, sem er í eigu Norðurorku, og tengja inn á sama kerfi.

Fráveitustöðin í Sandgerðisbót

Bygging hreinsistöðvar fráveitu í Sandgerðisbót hefur gengið vel í sumar, að sögn Haraldar Jósefssonar verkefnastjóra fráveitu. Í lok maí sl. var undirritaður verksamningur við byggingarverktakann SS Byggi um byggingu stöðvarinnar og hefur verið unnið hörðum höndum að byggingunni í sumar. Haraldur segir að lokið hafi verið við að steypa síðustu botnplötuna undir útrásargeymana í inntaksrýminu. „Nú þegar er búið að steypa sökkla og plötu fyrir stóran hluta byggingarinnar. Áfram verður unnið af krafti í vetur og ég reikna með, miðað við gang verksins til þessa, að húsið verði fokhelt í kringum áramót. Verktakinn á að skila byggingunni í febrúar 2020 og er miðað við að hreinsistöðin verði tekin í notkun vorið 2020,“ segir Haraldur.

 

Ýmis önnur verk
Kalt neysluvatn Akureyringa kemur að stærstum hluta úr annars vegar Hesjuvallalindum og hins vegar Sellandslindum ofan Akureyrar. Köldu vatni er einnig dælt frá Vöglum í Hörgárdal og er sérstaklega þörf fyrir það á veturna þegar vatnsrennslið minnkar frá öðrum svæðum.  Í sumar hafa tvær lindir á Hesjuvöllum verið endurvirkjaðar en undanfarin ár hefur skipulega verið unnið að því að endurvirkja þessar lindir til að tryggja betur öryggi þeirra. Kaldavatnsþörfin á Akureyri er 180-200 sekúndulítrar yfir daginn en lágrennsli fer niður í um 70 sekúndulítra yfir nóttina.

Eins og hefur komið fram er umtalsvert rennsli á köldu og heitu vatni út úr Vaðlaheiðargöngum. Upplýst hefur verið að göngin verði tilbúin til notkunar um mánaðamótin nóvember-desember nk. Liður í frágangi ganganna er að leiða kalt og heitt vatn út úr göngunum og segir Hjalti Steinn Gunnarsson, tæknifræðingur hjá Norðurorku, að unnið hafi verið að því á undanförnum vikum. Röskum sex kílómetrum frá gangamunna Eyjafjarðarmegin streymir kalda vatnið úr berginu en aðal heitavatnsæðin er hálfum þriðja kílómetra frá gangamunna Eyjafjarðarmegin. Kalda vatnið úr Vaðlaheiðargöngum mun í framtíðinni nýtast notendum á Svalbarðsströnd og Akureyri. Framtíðin mun leiða í ljós hvernig heita vatnið úr göngunum verður nýtt.

Að sjálfsögðu eru jafnan miklar framkvæmdir á sumrin við tengingar í nýjum götum. Sumarið 2018 var engin undantekning í þeim efnum. Mikið hefur verið um nýlagnir í Hagahverfi á Akureyri en einnig á Svalbarðseyri, í Hörgársveit og Hrafnagilshverfi í Eyjafjarðarsveit. Þá hefur verið mikið um endurnýjun heimlagna í eldri hús, samhliða framkvæmdum sem fólk er í við sínar fasteignir – lagnir fyrir heitt og kalt vatn og rafmagn. „Við biðjum húseigendur sem eru í framkvæmdum utan húss og þurfa einhverra hluta vegna að grafa frá heimlögnum að láta okkur vita. Í eldri hverfum notum við oftast tækifærið og  endurnýjum heimlagnir þegar íbúar eru í framkvæmdum inni sem úti,“ segir Vigfús Ingi Hauksson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs Norðurorku.

Þessa dagana er unnið að fyrsta áfanga í nýrri lögn frá safngeymi hitaveitu við Þórunnarstræti sem síðan verður tengd við lögn í Álfabyggð. Núna er stofnlögn frá árinu 1978 í kjallara undir tengigangi milli bygginga á dvalarheimilinu Hlíð. Með þeim framkvæmdum sem nú eru hafnar verður þessi lögn tekin úr umferð og ný lögn sett niður vestan við Þórunnarstræti og þaðan upp í Álfabyggð. Þannig verður hægt að afhenda Sjúkrahúsinu á Akureyri heitt vatn frá báðum þrýstisvæðum í bænum og auka  afhendingaröryggi á heitu vatni til Sjúkrahússins. Nýja lögnin er 400 mm í þvermál með 600 mm kápu.

Auk þess sem að framan greinir má nefna að unnið er að endurnýjun á um eins kílómeters langri stofnlögn hitaveitu ofan Þórustaða í Eyjafjarðarsveit sem komin er til ára sinna og hefur mikið bilað.

Þá skal þess getið að spennustöðvar í eigu Norðurorku, sem í heildina eru á annað hundrað talsins, eru yfirfarnar reglulega til að auka öryggi starfsfólks en einnig til að tryggja afhendingaröryggi til íbúa. Miðað er við að yfirfara um tíu spennustöðvar á ári í reglubundnum skoðunum. Stöðvarnar eru skoðaðar samkvæmt reglum Mannvirkjastofnunar og einnig er rafkerfið út frá þeim skoðað ásamt götukössum , heimtaugum o.fl.  Íbúar Akureyrar hafa orðið varir við þessa vinnu undanfarin ár vegna spennurofa meðan á stærri aðgerðum stendur og vill starfsfólk Norðurorku þakka fyrir þolinmæðina. Á síðustu tveimur árum hafa verið byggðar fjórar nýjar spennistöðvar í eldri hverfum í því skyni að færa þær út úr óhagstæðu húsnæði og áfram verður haldið á þeirri braut eins og aðstæður og fjármagn leyfir.