Varst þú að fá skilaboð frá Fallorku?
Undanfarna daga hefur verið mikið að gera í þjónustuveri Norðurorku í kjölfar tilkynningar þess efnis að Fallorka sé að hætta allri sölu á rafmagni til heimila og fyrirtækja en muni þess í stað beina starfsemi sinni eingöngu að framleiðslu á raforku.
Ef þú hefur fengið sms og/eða tölvupóst frá Fallorku þar sem tilkynnt er um ofangreinda breytingu þá ert þú viðskiptavinur Fallorku og þarft að bregðast við með því að velja þér nýjan raforkusala.
Hvernig þarft þú að bregðast við?
Mikilvægt er að viðskiptavinir Fallorku velji sér nýjan raforkusala fyrir 10. desember því Norðurorka getur einungis dreift rafmagni til þeirra sem eru með gildan samning við raforkusala. Ef ekki er valinn nýr raforkusali fyrir 10. desember neyðist Norðurorka til að loka fyrir afhendingu rafmagns.
Rétt er að taka fram að samkvæmt lögum er Norðurorku óheimilt að hafa aðkomu að vali notenda á raforkusala og getur því ekki aðstoðað við skráningu hjá nýjum raforkusala.
Hver er munurinn á Fallorku og Norðurorku?
Norðurorka er dreifiveita og sér um að dreifa rafmagni á Akureyri. Norðurorku, líkt og öðrum dreifiveitum, er óheimilt að selja raforku – það hefur verið í höndum Fallorku, dótturfyrirtækis Norðurorku. Vegna þjónustusamnings milli Fallorku og Norðuorku, sem fól í sér að Norðurorka sá um reikningagerð, hafa viðskiptavinir Fallorku á Akureyri hingað til fengið einn sameinaðan rafmagnsreikning með bæði sölu og dreifingu rafmagns.
Fallorka er bæði raforkuframleiðandi og raforkusali sem hefur selt rafmagn á neytendamarkaði. Fallorka mun hætta sölu rafmagns um áramótin en mun halda áfram að framleiða raforku í virkjunum sínum.
Fyrir frekari upplýsingar má hafa samband við þjónustuver Norðurorku í síma 460-1300 og á netfanginu no@no.is.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15