1. júl 2021

Miklar leysingar áraun á kerfi Norðurorku

Göngubrú og yfirfall við Glerárvirkjun I að kvöldi 30. júní 2021. (Mynd: Ólafur Rúnar Ólafsson)
Göngubrú og yfirfall við Glerárvirkjun I að kvöldi 30. júní 2021. (Mynd: Ólafur Rúnar Ólafsson)

Eftir kalt vor er óhætt að segja að sumarið sé komið en síðustu daga hafa hitatölur á svæðinu verið háar. Hitanum fylgja miklar leysingar og er nú gríðarlegt vatnsmagn á ferðinni í ám og lækjum. Líklegt er að fari þó heldur að draga úr vatnavöxtum og að það mesta sé nú yfirstaðið.

Leysingum sem þessum fylgir mikil áraun á kerfin okkar, allar fjórar veiturnar. Aðveituæðar hita- og vatnsveitu ásamt öðrum lögnum okkar þvera ár og læki víða, auk þess sem ófært er á nokkrum stöðum á starfssvæði okkar eftir að grafist hefur undan vegum með þeim afleiðingum að þeir fara í sundur. Leysingarnar núna hafa lítil áhrif á fráveitukerfið þar sem þær eru að mestu bundnar við ár og læki og þeim fylgir ekki rigning.

Fallorka, dótturfyrirtæki Norðurorku, á og rekur fjórar vatnsaflsvirkjanir í Eyjafirði. Tvær virkjanir í Djúpadalsá í Eyjafjarðarsveit og tvær í Glerá sem rennur í gegnum bæinn. Leysingarnar hafa sannarlega haft áhrif á þær og er staðan þannig að báðar Glerárvirkjanirnar hafa verið teknar úr rekstri, m.a. vegna mikils gróðurs sem er að setjast á inntaksristar. Vatn flæddi inn í efra stöðvarhús Djúpadalsvirkjunar í gær en þar eru þó báðar stöðvar í gangi.

Neyðarstjórn Norðurorku hefur komið saman vegna stöðunnar og áfram verður fylgst náið með málum á okkar starfssvæði.

Við viljum hvetja fólk til að fara ekki of nálægt bökkum við ár og læki þar sem víða hefur grafist undan þeim. Göngustígurinn inn Glerárdal er farinn í sundur og göngubrú við Glerárvirkjun I er lokuð. Fólk er sérstaklega beðið að fara ekki of nærri Glerárlóni, en áin er óvenju vatnsmikil þessa dagana eins og áður hefur komið fram. Víða hefur grafist undan bökkum árinnar og því hvetjum við foreldrar og forráðamenn sérstaklega til að brýna fyrir börnum að fara ekki of nálægt svæðinu.

Það er vissulega tilkomumikið, en þó um leið óhugnalegt, að finna og sjá hversu mikil orka býr í vatninu. Við þurfum öll að muna að fara varlega og bera virðingu fyrir hættum sem finna má víða þessa dagana.

Með fréttinni fylgja myndir sem Ólafur Rúnar Ólafsson tók að kvöldi 30. júní 2021 við Glerárvirkjun I.