2. feb 2024

Námskeiðs- og fræðsluvikur Norðurorku

Gauti Þór Grétarsson, starfsmaður Norðurorku, kenndi samstarfsfólki sínu m.a. skyndihjálp.
Gauti Þór Grétarsson, starfsmaður Norðurorku, kenndi samstarfsfólki sínu m.a. skyndihjálp.

Fræðsluvikur fóru fram í Norðurorku dagana 8.-19. Janúar. Þetta er sjötta árið sem þær eru haldnar með þessu sniði, þ.e. að teknar eru frá tvær vikur á ári, utan háannatíma framkvæmda, þar sem skipulögð eru hin ýmsu námskeið og fyrirlestrar fyrir starfsfólk.

Í ár var boðið upp á um það bil 40 námskeið sem ýmist voru valkvæð eða skylda að mæta á. Allt starfsfólk tekur þátt en þó er misjafnt hvað hver og einn situr mörg námskeið. Tímalengd námskeiða er einnig mismunandi, allt frá hálftíma örnámskeiðum og upp í 3-4 klukkustunda námskeið/vinnustofur.

Tveir skipuleggjendur fræðsluvikna: Anna Klara Hilmardóttir og Erla Björg Guðmunds Valgerðardóttir á fyrstu mynd til vinstri.

 Gott skipulag mikilvægt

Það voru þær Anna Klara Hilmarsdóttir, Erla Björg Guðmunds Valgerðardóttir og Hrönn Brynjarsdóttir, sem allar vinna hjá Norðurorku, sem skipulögðu fræðsluvikurnar. Aðspurðar hverjar séu helstur áskoranir í tengslum við uppbrotið segja þær stöllur að það sé uppröðun og skipulagning námskeiða. Að tryggja að allt starfsfólk hafi möguleika á að sitja þau námskeið sem það hefur áhuga á, auk þess sem truflun á daglegan rekstur fyrirtæksins sé haldið í lágmarki. Þá hjálpar að valkvæðu námskeiðin eru sum hver kennd oftar en einu sinni á þessum tveimur vikum til að starfsfólk hafi val um tíma.

Fjölbreytnin í fyrirrúmi

Sem dæmi um námskeið/fræðslu má nefna skyndihjálparnámskeið, námskeið um hreinlæti við lagnavinnu, námskeið um jákvæða karlmennsku og jafnrétti og námskeið um upplýsingaöryggi – svo fátt eitt sé nefnt. Þó nokkur fræðsluerindi voru í höndum innanhúss-fólks. Og það sem stendur uppúr að mati skipuleggjenda er einmitt hvað Norðurorka býr yfir góðum mannskap, sem er tilbúinn að setja saman námskeið fyrir samstarfsfólk því auðvitað eru helstu sérfræðingarnir í starfsemi fyrirtækisins þeir sem halda starfseminni úti. Almennt lærðu öll eitthvað nýtt, víkkuðu sjóndeildarhringinn eða í það minnsta rifjuðu upp bráðnauðsynlega hluti eins og t.d. endurlífgun.

Fræðsluvikur Norðurorku eru þáttur í því að efla þekkingu starfsfólks og ýta undir vöxt og þróun í starfi. Svo lengi lærir sem lifir.