18. maí 2021

Norðurorka vinnur gegn gróðurhúsaáhrifum

Akureyrarbær. Mynd: Auðunn Níelsson.
Akureyrarbær. Mynd: Auðunn Níelsson.

Norðurorka vinnur gegn neikvæðum loftslagsáhrifum gróðurhúsalofttegunda og bindur mun meira CO2 en fyrirtækið losar vegna starfsemi sinnar. Árið 2020 losaði fyrirtækið 434 tonn CO2í (koltvísýringsígildi) vegna starfseminnar en batt á sama tíma 4.398 tonn CO2í. Heildarkolefnisspor fyrirtækisins árið 2020 var því -3.964 tonn CO2í.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá sundurliðað kolefnisspor fyrirtækisins fyrir árið 2020. Súlurnar fyrir ofan núlllínu sýna losun fyrirtækisins og grænu súlurnar fyrir neðan sýna bindinguna.

Skógrækt og metanframleiðsla

Í upphafi árs 2020 átti Norðurorka 54 hektara af skógi sem bindur koltvísýring. Á árinu var tekin ákvörðun um að endurvekja gróðursetningarverkefni fyrirtækisins og í samvinnu við Akureyrarbæ er gróflega búið að kortleggja möguleg gróðursetningarsvæði Norðurorku. Einnig var hafist handa við gróðursetningu trjáa en um 550 víðitrjám var plantað á metantökusvæði Norðurorku. Gert er ráð fyrir að skógræktaráætlun Norðurorku til komandi ára eða áratuga verði fullunnin á árinu 2021.

Til viðbótar við skógræktina hefur Norðurorka unnið gegn gróðurhúsaáhrifum með því að framleiða metangas úr gömlu sorphaugunum ofan við Akureyri frá árinu 2014. Hauggas, sem annars færi beint út í andrúmsloftið er um 23x skaðlegra en koldíoxíð sem myndast við bruna metans, t.d. í bílvél. Þess vegna er nýting á því metani, sem annars myndi streyma beint út í andrúmsloftið, mikill ávinningur fyrir umhverfið og einnig þjóðhagslega hagkvæmt að því leyti að fyrir hvern Nm3 metans sem brennt er í vél sparast um einn lítri af innfluttu jarðefnaeldsneyti.

Vistvænir bílar fyrirtækisins

Þrátt fyrir þetta góða kolefnisspor fyrirtækisins leggur Norðurorka áherslu á að draga úr kolefnislosun vegna starfseminnar. Ein helsta aðgerð fyrirtækisins til þess er að kanna ávallt möguleikann á vistvænum bílum við endurnýjun á bílaflotanum en nú eru 16 af 37 bílum Norðurorku knúnir á vistvænan hátt. Hér fyrir neðan má sjá þróun samsetningar bílaflota Norðurorku frá árinu 2015.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Með aðgerðum sínum í umhverfismálum styður Norðurorka við 13. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna en það snýr að aðgerðum í loftslagsmálum.