Á dögunum fór fram ein stærsta fjáröflun björgunarsveita Landsbjargar, salan á neyðarkallinum. Samhliða sölunni á Neyðarkallinum selja björgunarsveitirnar fyrirtækjum stærri Neyðarkalla og ákvað Norðurorka, líkt og síðustu ár, að styrkja björgunarsveitir landsins um einn slíkan. Er það fyrirtækinu bæði ljúft og skylt að styðja við bakið á því frábæra og óeigingjarna fólki sem styður við okkur öll þegar við þurfum á að halda. Hagnaður af sölunni rennur til björgunarsveita og slysavarnadeilda og er hann notaður til að efla og styrkja starfið.
Í ár er Neyðarkallinn straumvatnsbjörgunarmaður, til minningar um Sigurð Kristófer McQuillan Óskarsson sem lést á björgunaræfingu á liðnu ári. Markmiðið er einnig að vekja athygli á að árlega drukkna álíka margir hér á landi og láta lífið í umferðarslysum.
Í gegnum tíðina hefur almenningur haft mikinn skilning á störfum björgunarsveita enda veit fólk að þegar neyðarkall berst bregðast þær hratt við með allan sinn mannskap, búnað, tækni og þekkingu. Sjá frekari upplýsingar um starfið hjá Landsbjörg hér.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15