22. des 2021

Ný dælustöð í Reykjaveitu

Dælustöðin við Hróarsstaði
Dælustöðin við Hróarsstaði

Norðurorka hefur frá árinu 2007 rekið hitaveitu í Fnjóskadal og Grýtubakkahrepp, Reykjaveitu. Á vinnslusvæðinu á Reykjum í Fnjóskadal eru tvær borholur sem hafa verið virkjaðar og þaðan liggur 54 km lögn til Grenivíkur. Mikill hæðamismunur er á lögninni sem fer frá því að vera í 230 m hæð á Reykjum og niður að sjávarmáli við Grenivík auk þess sem notendur á leiðinni eru í afar breytilegri hæð.

Þrýstisveiflur í Reykjaveitu

Að reka svona langa hitaveitu getur haft í för með sér margar áskoranir. Í gegnum árin hefur borið á þrýstisveiflum í Reykjaveitunni þar sem þrýstingur í svona langri lögn er breytilegur eftir því hversu mikil notkunin er. Þrýstisveiflurnar hafa skapað erfiðan rekstur á veitunni við mikla notkun. Til að tryggja notendum passlegan þrýsting þarf því ýmist að minnka þrýstinginn með þrýstiminnkurum, eða auka hann með dælum.
Einn liður í því að vinna bug á þessum þrýstisveiflum er að setja upp dælustöð á stofninn sem jafnar þá út sveiflur sem myndast í stofninum. Samhliða þeirri framkvæmd, að koma dælustöð í gagnið við Hróarsstaði, eru settir upp fjórir þrýstiminnkaraskápar á þær heimlagnir sem næst eru á eftir dælustöðinni. Það er gert til að tryggja afhendingargæði til þeirra sem næst búa dælustöðinni og til að beita megi dælustöðinni sem best.

Í síðustu viku var dælustöðinni á Hróarsstöðum komið fyrir á sinn stað. Húsið sjálft var smíðað í haust, inni við bestu aðstæður, og svo hefur það verið flutt á milli iðnaðarmanna þar sem lagnakerfi var komið fyrir ásamt loftræsingu og svo núna síðast raf- og stýrikerfi. Þessi háttur þ.e. að koma með húsið til iðnaðarmanna hefur reynst vel og ljóst að mikill tími og þar með fjármagn sparast með þessu fyrirkomulagi. Það hafa því nokkur fyrirtæki komið að smíði og uppsetningu á húsinu og hefur samstarfið gengið vel. Eftir að húsið var komið á sinn stað á Hróarsstöðum var svo farið í að tengja rafmagn, ljósleiðara og auðvitað hitaveitustofnlögnina að og frá húsinu.

Í gær var svo komið að því að ræsa dælurnar og gekk það vel. Á næstu dögum verður fylgst vel með virkni dælustöðvarinnar, forritun á dælum haldið áfram og kerfið í heild sinni slípað til.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir af húsinu og þegar var verið að koma því fyrir á Hróarsstöðum.