27. júl 2018

Ný Hjalteyrarlögn er ekki háð mati á umhverfisáhrifum

Eins og áður hefur komið fram hefur Norðurorka lagt af stað í áfangaskipta lagningu nýrrar aðveituæðar hitaveitu frá Hjalteyri.

Um er að ræða mikla framkvæmd en nú í sumar hafa bæjarbúar og gestir bæjarins vafalaust orðið varir við framkvæmdir vegna fyrsta áfanga verksins sem felur í sér lagningu nýrrar 500 mm lagnar innanbæjar þ.e. frá dælustöð Norðurorku á Glerártorgi og út fyrir Hlíðarbraut. Á myndinni hér til hægri má sjá hluta lagnarinnar sem um ræðir en myndin er tekin við Hörgárbraut. Gert er ráð fyrir að fyrsta áfanga ljúki í haust en á næstu árum verður haldið áfram í áföngum, næst í norðri frá Arnarnesi að Ósi.

Framkvæmdin er eins og áður segir stór og hefur Norðurorka undanfarna mánuði átt í miklum samskiptum við Skipulagsstofnun vegna hennar. Útbúin var ítarleg greinagerð um framkvæmdina, svo sem hvaða áhrif hún hugsanlega hefði á umhverfið, fugla og fiska, menningarminjar og fleira og hún síðan send til umsagnar hjá ýmsum stofnunum og hagsmunaaðilum.

Í vikunni barst úrskurður Skipulagsstofnunar þar sem fram kemur að framkvæmdin er ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Niðurstaðan er góð fyrir Norðurorku en ekki síður fyrir samfélagið. Það er von okkar að ný Hjalteyrarlögn muni duga samfélaginu við Eyjafjörð næstu áratugina og tryggja þannig samfélaginu þau miklu lífsgæði sem heitt vatn svo sannarlega er.