29. jún 2021

Ný metanþjappstöð og bætt afhendingaröryggi

Metanbílar í eigu Norðurorku og Akureyrarbæjar við afgreiðslustöð metans við Súluveg.
Metanbílar í eigu Norðurorku og Akureyrarbæjar við afgreiðslustöð metans við Súluveg.

Norðurorka hefur unnið metangas úr gömlu sorphaugunum á Glerárdal ofan Akureyrar frá árinu 2014. Hauggas myndast með tímanum þar sem lífræn efni brotna niður við loftfirrtar aðstæður eins og myndast á sorphaugum. Til þess að hægt sé að nota hauggasið sem eldsneyti á bíla þarf fyrst að hreinsa úr því koltvíoxíð og brennisteinsvetni. Eftir hreinsun er metaninnihald gassins um 85-95% og þá þarf að þjappa því, ýmist á bíla í gegnum afgreiðslustöð eða inn á lager þar sem það bíður eftir því að verða notað sem hreint innlent eldsneyti.

Fram til ársins 2020 rak Norðurorka aðeins eina þjöppustöð sem sinnti því hlutverki að þjappa metangasi á bíla, og á lager þegar engir bílar voru við afgreiðslustöðina. Á meðan þjappað var á bíla þurfti að stoppa vinnsluna, þar sem engin þjappa var til staðar til að taka við gasinu og þjappa því á lager. Hreinsistöðin sem hreinsar koltvíoxíð og brennisteinsvetni úr hauggasinu var því sífellt að stöðvast og skapaði þetta vandræði í vinnslunni auk þess sem afkastageta stöðvarinnar var aldrei í hámarki.

Nú hefur Norðurorka keypt aðra þjöppustöð og eru þær því orðnar tvær. Þetta þýðir að önnur þjöppustöðin er alltaf í gangi og þjappar hreinsuðu metangasi inn á lager. Hin þjöppustöðin bíður tilbúin eftir því að afgreiða metan á bíla. Það er von Norðurorku að þessi viðbót komi til með að bæta afhendingaröryggi metans og þar með gera það að enn vænlegri kosti fyrir stór sem og smá ökutæki.

Það þarf vart að minna á umhverfislegan og þjóðhagslegan ávinning metanverkefnis sem þessa en hauggas sem myndi sleppa beint út í andrúmsloftið ef því væri ekki safnað er 25 sinnum skaðlegra en það koltvíoxíð sem myndast við bruna metans, t.d. í bílvél. Svo sparast um það bil einn lítri af innfluttu jarðefnaeldsneyti fyrir hvern Nm3 metans sem brennt er.