1. okt 2019

Nýir stafrænir hitaveitumælar

Norðurorka hefur hafið uppsetningu á stafrænum hitaveitumælum á þjónustusvæði sínu. Stafrænu mælarnir koma með tíð og tíma til með að leysa mekaníska rúmmetramæla af hólmi sem nú eru uppi hjá allflestum viðskiptavinum Norðurorku.

Nýju stafrænu mælarnir geta bæði mælt í m3 (rúmmetrum) og í kWh (kílóvattstundum) sem er svokölluð orkuígildismæling og eru bæði mæligildin skráð í kerfi Norðurorku. Viðskiptavinir með þessa nýju mæla skila því inn tveimur tölum þegar lesið er af mælinum, þ.e. bæði m3 og kWh. Innanbæjar á Akureyri verður áfram innheimt eftir heitavatnsrúmmetrum.

Möguleiki á fjarálestri
Nýju orkuígildismælarnir bjóða uppá möguleikann á fjarálestri. Fyrst um sinn verður þó sama fyrirkomulag á álestri innanbæjar á Akureyri eins og verið hefur þar sem enn er ekki hægt að fjarlesa sölumæla rafveitu.  

Leiðbeiningar
Hér að neðan má sjá nánari upplýsingar og leiðbeiningar fyrir umrædda Kamstrup orkuígildismæla.

Upphafsskjámynd mælis sýnir kWh (kílóvattstundir) en þá er búið að reikna út orkuígildi vatnsins.

 

Með því fletta einu sinni til hægri (sjá bláan hring á mynd hér að neðan) má sjá rúmmetrastöðu mælis, þ.e. magn vatns (m3) sem runnið hefur í gegn.

 

Ef haldið er áfram að fletta til hægri má einnig sjá hitastig vatnsins. 
Hægt er að fara til baka með því að ýta á vinstri örvarhnappinn en ef mælirinn er látinn ósnertur í fjórar mínútur þá fer hann aftur í upphafsstöðuna sem sýnir orkuígildið (kWh).

Sjá má ítarlegri leiðbeiningar fyrir Kamstrup mælinn (á ensku) með því að smella hér.