27. mar 2023

Ráðstefnan Orkuskipti til framtíðar

Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku á ráðstefnunni Orkuskipti til framtíðar.
Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku á ráðstefnunni Orkuskipti til framtíðar.

Föstudaginn 24. mars sl. fór fram raforkuráðstefna lagadeildar Háskólans á Akureyri undir yfirskriftinni Orkuskipti til framtíðar. Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku fór þar með framsögu um Orkuskipti - sjónarmið dreifiveitna.

Breytingar á innviðum nauðsynlegar

Í erindi sínu fjallaði Eyþór meðal annars um þær breytingar sem þurfa að eiga sér stað á innviðum til að orkuskipti geti gengið greiðlega fyrir sig. Má þar nefna yfirstandandi verkefni Norðurorku þar sem verið er að endurnýja spennukerfi í eldri hverfum (sem byggð eru fyrir 1970) þannig að nýrra kerfi TN-C taki við.  Í því samhengi bendir Eyþór jafnframt á að ekki þurfi endilega stóra hleðslustöð við hvert hús, heldur séu hverfahleðslur (hleðslugarðar) oft á tíðum vænlegri kostur. Því samkvæmt mælingum og greiningum er meðalakstur fólksbíls á Íslandi um 40 km á dag, þar með ættu allir að getað náð þeirri hleðsluþörf óháð því hvort heldur notandi er á eldra eða nýrra spennukerfinu. En Norðurorka og Akureyrarbær hafa kortlagt staði innanbæjar fyrir uppbyggingu á hverfahleðslum.

Mynd af dreifingu á tveimur mismunandi spennukerfum á Akureyri.

Á myndinni fyrir ofan má sjá dreifingu tveggja spennukerfa á Akureyri. Á gulu svæðunum er TT spennusvæði en TN-C fyrir utan. Öll endurnýjun búnaðar miðast við að TT afleggist og TN-C komi í staðinn. 

Orkuskipti í húshitun

Eyþór fjallaði einnig um þær áskoranir sem blasa við hvað varðar orkuskipti í húshitun. En nú er hitaveitan á svæðinu komin að þolmörkum. Búið er að nýta nærtækustu leiðir við öflun á heitu vatni. Nú þarf að leggja í meiri rannsóknir, leita lengra og kosta meiru til. Því staðreyndin er sú að hitaveita er ekki alltaf ákjósanlegur kostur, sérstaklega ekki í dreifbýli. Góðu fréttirnar eru að varmadælur eru að þróast hratt og verða sífellt betri og hagkvæmari kostur. Varmadælur eru umhverfisvæn lausn sem bætir orkunýtingu og getur lækkað bæði rafhitunarkostnað notenda og niðurgreiðslukostnað ríkisins umtalsvert. 

Að mörgu er að hyggja í veitumálum hvað orkuskipti varðar enda ljóst að til mikils er að vinna. Mikilvægt er að leikreglur séu skýrar og kerfið skilvirkt til að hægt verði að mæta þörfum notenda framtíðarinnar með ábyrga auðlindanýtingu að leiðarljósi.