30. maí 2018

Samningar undirritaðir í Sandgerðisbót um byggingu hreinsistöðvar fráveitu

Undirritun samnings
Undirritun samnings

Í dag, miðvikudaginn 30. maí, voru undirritaðir í Sandgerðisbót á Akureyri samningar milli Norðurorku og verktakafyrirtækisins
SS Byggis á Akureyri um byggingu hreinsistöðvar fráveitu. Við það er miðað að stöðin verði tekin í notkun að tveimur árum liðnum, á vordögum árið 2020. Samningana undirrituðu af hálfu Norðurorku Helgi Jóhannesson forstjóri og Haraldur Jósefsson verkefnastjóri fráveitu og af hálfu SS Byggis Sigurður Sigurðsson framkvæmdastjóri og Brynjólfur Árnason verkefnastjóri.

Norðurorka tók yfir fráveitu Akureyrar 1. janúar 2014
Þessi framkvæmd á sér nokkurn aðdraganda. Þann 1. janúar 2014 tók Norðurorka yfir fráveitu Akureyrar með samningi þar að lútandi og var gert ráð fyrir að byggingu hreinsistöðvar og lagningu útrásar yrði lokið á árinu 2018. Af ýmsum ástæðum hefur ekki verið unnt að fylgja þeirri tímaáætlun. Verkið fór í umhverfismat og annaðist verkfræðistofan Efla þann verkþátt. Drög að tillögu að matsáætlun var lokið í febrúar 2016. Ári síðar lá fyrir samþykki Skipulagsstofnunar á umhverfismatinu. Einnig vann Háskólinn á Akureyri rannsóknaskýrslu um lífríki Eyjafjarðar.
Á síðustu tveimur árum hefur verið unnið að því að ganga frá grjótvarinni landfyllingu í Sandgerðisbót, girða hana af, reka niður þil, sprengja fyrir neðanjarðargeymum og reka niður staura fyrir bygginguna.

Ný hreinsistöð fráveitu verði tekin í notkun eftir tvö ár
Í maí 2017 var boðin út bygging hreinsistöðvarinnar, þ.e. sjálft húsið, en ekkert tilboð barst í verkið. Ástæðan var sú að fyrir ári var mikil þensla á byggingamarkaði og verkefnastaða verktaka því góð. Því var tekin ákvörðun um að fresta framkvæmdum um eitt ár og bjóða verkið aftur út núna í maí 2018, með lengri skilatíma og lagningu útrásar í sama verkþætti. Þrjú tilboð bárust og var lægsta tilboðið frá SS Byggi á Akureyri. Verkinu skal lokið í febrúar 2020 og er þá miðað við að hreinsistöðin verði tekin í  notkun vorið 2020.

Viðamikið fráveitukerfi
Fráveitukerfi bæjarins er viðamikið og hafa á undanförnum árum verið byggðar dælustöðvar og lagðar þrýstilagnir meðfram strandlengjunni að útrás við Sandgerðisbót. Fyrir sex árum var bráðabirgðaútrás lengd í 90 metra en með tilkomu hreinsistöðvarinnar verður öllu skólpi dælt í hreinsivirki stöðvarinnar og því síðan veitt í 400 metra langa og 40 metra djúpa útrás út í sjó.
Þau rými hreinsistöðvarinnar sem eru neðanjarðar eru dýpst um átta metrar en yfirbyggingin verður um fimm metra há. Í hinni nýju hreinsistöð síast föst og gróf efni frá fráveituvatninu og verður þeim ekið til urðunar í Stekkjavík norðan Blönduóss.

Áætlaður kostnaður við byggingu hreinsistöðvarinnar með útrás er um 950 milljónir króna.

Ánægjulegur dagur
„Við erum afskaplega glöð með að nú loks hilli undir lok á þessu verki og fjörðurinn verði hreinn. Komi upp krafa um að hreinsa meira eða Norðurorka ákveði slíkt höfum við hér yfir að ráða meira landrými fyrir frekari mannvirki, ef með þarf.
Við fengum þrjú tilboð í verkið og var lægsta tilboðinu frá SS Byggi tekið. Þetta er verktaki sem við þekkjum og ég veit að hann vinnur vel og af metnaði,” sagði Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku að lokinni undirskrift í gær.

Rúmlega eitt þúsund rúmmetrar af steypu
Sigurður Sigurðsson framkvæmdastjóri SS Byggis segir að bygging hússins hefjist strax. „Þetta hús er að því leyti frábrugðið öðrum byggingum að í því er mikið járnavirki. Í síðustu viku lukum við framkvæmdum við hina nýju virkjun á Glerárdal og ég vil að nokkru leyti líkja byggingu þessa húss við járnavirkið og steypuna þar. Húsið þarf að vera öflugt og sterkt enda er stór hluti þess undir sjávarmáli. Í húsið fara yfir eitt þúsund rúmmetrar af steypu en til samanburðar fóru um þrettán hundruð rúmmetrar af steypu í Glerárvirkjun II,“ segir Sigurður Sigurðsson.