24. ágú 2023

Sorpkvarnir ekki heppilegar fyrir fráveitukerfið

Matarleifar eru best komnar í jarðgerð, annað hvort við heimahús eða í gegnum sorphirðu sveitarfélag…
Matarleifar eru best komnar í jarðgerð, annað hvort við heimahús eða í gegnum sorphirðu sveitarfélaganna.

Í kjölfar innleiðingar nýs flokkunarkerfis í Reykjavík hafa sorpkvarnir verið töluvert til umræðu að undanförnu. Sorpkvarnir hafa hingað til ekki verið staðalbúnaður í íslenskum eldhúsum. Margir hafa þó kynnst notkun þeirra erlendis og hér á landi bjóða nokkur fyrirtæki þær til sölu. En eru sorpkvarnir heppilegur búnaður í íslensk eldhús? Hvað verður um úrganginn?

Valda aukningu í viðhaldi og kostnaði

Fráveitukerfin á Íslandi eru ekki hönnuð til að taka við miklu magni af matarleifum. Ekki nóg með að þær fari illa með lagnir vegna breytts sýrustigs, heldur auka þær einnig álag á dælu- og hreinsistöðvar með tilheyrandi aukningu í viðhaldi og kostnaði. Úrgangnum sem fer í sorpkvarnir fylgir einnig fita sem þá safnast saman og stíflar lagnirnar. Ekki má gleyma því að hakkaðar matarleifar frá heimilum eru auðveld fæða fyrir mýs og rottur sem mögulega hafa aðgang að holræsakerfinu.

Jarðgerð heppilegri kostur

Í ljósi ofangreindra sjónarmiða er því ljóst að matarleifar eru best komnar í jarðgerð, annað hvort við heimahús eða í gegnum sorphirðu sveitarfélaganna. Á Akureyri hefur lífrænn úrgangur verið flokkaður og komið í jarðgerð í meira en áratug. Á hverju heimili í bænum er græn karfa fyrir lífrænan úrgang auk þess sem bæjarbúum er úthlutað maíspokum undir úrgang. Í sorptunnum bæjarbúa er svo sérstakur dallur sem ætlaður er fyrir hann. Sorphirða bæjarins sér um að ná í úrganginn og koma honum í jarðgerðarstöðina Moltu ehf. sem staðsett er í Eyjafirði. Þar er úrgangurinn brotinn niður við loftháðar aðstæður og úr verður svokölluð molta. Moltuna er síðan hægt að nota sem jarðvegsbæti, til landfyllingar eða jafnvel sem áburð. Á Akureyri er moltan nýtt í ýmsa starfssemi, t.d. í Lystigarðinum, á gólfvellinum og í landbúnað. Mikill umhverfisávinningur felst í því að koma lífrænum úrgangi í jarðgerð, frekar en í fráveitukerfið eða í urðun.