13. júl 2023

Staðan á metan á Akureyri

Norðurorka hóf framleiðslu metangass úr gömlu ruslahaugunum á Glerárdal fyrir ofan Akureyri í ágústlok árið 2014. Mikil ávinningur er falinn í föngun hauggass sem og framleiðslu metangass fyrir samfélagið allt og ekki síður fyrir umhverfið. Sala á metan hefur aukist jafnt og þétt á hverju ári sem er gleðilegt en hefur jafnframt leitt af sér nýjar áskoranir.

Undanfarin ár hefur borið á vandkvæðum við öflun hauggassins úr gömlu rusluhaugunum og eins og áður hefur komið fram er nú svo komið að haugarnir anna ekki eftirspurn. Stærsta áskorunin er sú að á gömlu ruslahaugunum var óflokkað rusl urðað, hvort sem um var að ræða bílhræ, plast, sláturúrgang eða annað. Blandaður úrgangur sem þessi gerir allan rekstur sem og áætlanagerð erfiðari.

Margt hefur verið reynt til að auka og viðhalda framleiðslu metans úr haugunum, meðal annars endurnýjun á röralögnum og safnkössum ásamt breytingum á búnaði til að halda hita og þar með tryggja framleiðslu yfir kaldasta vetrartímann. Haugurinn og hauggasframleiðslan er þó í eðli sínu ein stór tilraunastofa. Ljóst þykir að framleðslugeta haugsins hafi náð hámarki og komi til með að minnka jafnt og þétt næstu ár. Áskorun næstu missera verður því að hámarka framleiðslumagnið án þess að fórna gæðum.

Metan hefur nokkrum sinnum verið flutt til Akureyrar frá Reykjavík í samvinnu við SORPU. En flutningar á metan milli landshluta eru bæði kostnaðarsamir og mengandi þegar gasið er flutt með flutningabílum sem brenna jarðefnaeldsneyti. Þetta var þó gert til að halda þeim markaði sem byggður hefur verið upp fyrir metan á svæðinu og skapa grundvöll fyrir frekari metanvæðingu. Nú er sú staða komin upp að vegna aukinnar eftirspurnar eftir metangasi í Reykjavík þá er þjónustufall í afgreiðslu þess þar einnig. Það þýðir að aftur er framboð á metangasi á Akureyri takmarkað og því hefur þurft að grípa til lokunnar í metanstöðinni að undanförnu.

Framtíð metans á Akureyri er óljós sem stendur. Frekari metanvæðing getur ekki hafist fyrr en metanframleiðsla við stýrðar aðstæður hefst á svæðinu. Ekki er ljóst á höndum hverra slík framleiðsla kemur til með að vera. Hlutverk Norðurorku er að safna því metani sem myndast á gömlu ruslahaugunum á Glerárdal og vinna úr því eldsneyti. Það er verkefni samfélagsins að finna lausnir til frekari framleiðslu á metangasi og hefur Norðurorka bent á mikilvægi þess að sú vinna hefjist sem fyrst.

Þrátt fyrir að hámarksgeta haugsins á Glerárdal sé talsvert minni en ráðgert var í upphafi verkefnis, þá er vert að rifja upp að frá upphafi hefur Norðurorka safnað, hreinsað og þjappað rúmlega 1,4 milljón Nm3 af metangasi. Þetta hefur sparað innflutning jafn margra lítra af jarðefnaeldsneyti og sparað losun á því sem nemur 25 þúsund tonnum af koltvísýringi. Verkefnið hefur því sannarlega skilað samfélaginu ávinningi sem við getum verið stolt af.