23. maí 2022

Hreinsunarátak starfsfólks Norðurorku

Flottur hópur sjálfboðaliða að loknu góðu verki.
Flottur hópur sjálfboðaliða að loknu góðu verki.

Hópur starfsfólks Norðurorku, auk maka, barna og barnabarna, kom saman eftir vinnu sl. fimmtudag og tók til hendinni. Segja má að hreinsunarátakið sé orðinn fastur liður á vorin en þetta er í fimmta sinn sem starfsfólk Norðurorku leggur sitt að mörkum í umhverfismálum með þessum hætti. Á myndinni má sjá flesta sjálfboðaliðana í lok dags.

Það voru um 45 einstaklingar, stórir og smáir, sem komu saman og söfnuðu saman ógrynni af rusli á tveimur tímum.  Líkt og undanfarin ár var farið í næsta nágrenni við höfuðstöðvar Norðurorku á Rangárvöllum auk þess sem hreinsað var til í kringum aðveitustöðvar rafmagns og dælustöð hitaveitu. 

Hreinsunarátakið rímar vel við umhverfisstefnu Norðurorku en umhverfismál hafa á undanförnum árum fengið aukið vægi hjá Norðurorku. Fyrirtækið leggur áherslu á virðingu við náttúruna og jákvætt kolefnisfótspor en í því felst m.a. að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Í þessu sambandi má geta þess að rúmlega þriðjungur þjónustubíla Norðurorku gengur fyrir vistvænum orkugjöfum, metangasbílar og einn rafmagnsbíll.