24. feb 2021

Styrkir Norðurorku til samfélagsverkefna 2021

Í dag, miðvikudaginn 24. febrúar, úthlutaði Norðurorka styrkjum til samfélagsverkefna og fór athöfnin fram í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Staðsetningin er vel við hæfi þar sem Norðurorka er bakhjarl Menningarfélagsins og leggur í samstarfssamningnum áherslu á að styðja sérstaklega við þá viðburði sem standa bæjarbúum endurgjaldslaust til boða og/eða snúa að þjónustu við börn og ungmenni.

Auglýst var eftir umsóknum um styrki til samfélagsverkefna vegna ársins 2021 í nóvember sl. og rann umsóknarfrestur út 10. desember. Fram kom að veittir væru styrkir til menningar- og lista, íþrótta- og æskulýðsstarfs og góðgerðarmála. Markmið með styrkjum Norðurorku hf. er að styðja við sjálfsprottið starf, starfsemi frjálsra félagasamtaka og framtak einstaklinga sem stuðlar að farsælli þróun samfélagsins, lífsgæðum og fjölbreyttu mannlífi.

Alls bárust 82 umsóknir. Flestar umsóknir bárust frá aðilum á starfssvæði Norðurorku sem nær frá Fjallabyggð til Þingeyjarsveitar en einnig komu nokkrar umsóknir annarsstaðar frá. Verkefnin voru fjölbreytt og greinilega mikil gróska í samfélaginu á fjölmörgum sviðum en að þessu sinni hlutu 34 verkefni styrk og nam heildarfjárhæð styrkja sjö milljónum króna.

Mörg þessarra verkefna eiga það sameiginlegt að á bak við þau liggur mikil sjálfboðavinna fólks sem leggur sig fram við að veita sínu hjartans máli eða áhugamáli brautargengi og því er það sérstaklega ánægjulegt að geta átt þátt í því að verðlauna slíkt starf. 

Á myndinni má sjá styrkþega, eða fulltrúa þeirra, ásamt Helga Jóhannessyni forstjóra Norðurorku og Ingibjörgu Ólöfu Isaksen stjórnarformanni, að lokinni úthlutun. Mynd: Auðunn Níelsson.