27. jan 2023

Styrkir Norðurorku til samfélagsverkefna 2023

Styrkþegar eða fulltrúar þeirra að lokinni úthlutun ásamt Eyþóri Björnssyni forstjóra Norðurorku. (M…
Styrkþegar eða fulltrúar þeirra að lokinni úthlutun ásamt Eyþóri Björnssyni forstjóra Norðurorku. (Mynd: Auðunn Níelsson)

Fimmtudaginn 26. janúar, fór fram afhending á styrkjum Norðurorku til samfélagsverkefna vegna ársins 2023. Athöfnin fór fram í Menningarhúsinu Hofi, sem er vel við hæfi þar sem Norðurorka er bakhjarl Menningarfélagsins. 

Í október 2022 auglýsti Norðurorka hf. eftir umsóknum um styrki til samfélagsverkefna fyrir árið 2023 og rann umsóknarfrestur út 15. nóvember. Fram kom að veittir væru styrkir til menningar- og lista, íþrótta- og æskulýðsstarfs og góðgerðarmála. Markmið með styrkjunum er að styðja við sjálfsprottið starf, starfsemi frjálsra félagasamtaka og framtak einstaklinga sem stuðlar að farsælli þróun samfélagsins, lífsgæðum og fjölbreyttu mannlífi. 

Alls bárust 125 umsóknir en aldrei hafa jafn margar umsóknir borist vegna þessa. Eftirtektarvert var hve fjölbreytni verkefnana er mikil sem lýsir vel þeirri grósku sem býr í samfélaginu okkar. Fjögurra manna vinnuhópur (skipaður starfsfólki NO) fór yfir umsóknirnar og varð niðurstaða hópsins að veita styrki til 58 verkefna. Verkefnið var erfitt enda fjölmörg góð verkefni sem sótt var um styrk til og ákveðin upphæð sem var til ráðstöfunar. 

Í ár tengjast flest verkefnanna fræðslu og stuðningi annarsvegar og íþróttum og útivist hinsvegar, menning og listir eru þó einnig áberandi. Sem dæmi um fjölbreytileika verkefna sem hlutu styrk þá voru veittir styrkir til afreksíþróttafólks, móðurmálskennslu fyrir flóttafólk, heimildamyndagerðar, kaupa á hryggsjá, ritlistasamkeppni fyrir grunnskólabörn og ókeypis fyrirlestra fyrir eldri borgara.

Mörg þessara verkefna eiga það sameiginlegt að á bak við þau liggur mikil sjálfboðavinna fólks sem leggur sig fram við að veita sínu hjartans máli eða áhugamáli brautargengi og því er það sérstaklega ánægjulegt að geta átt þátt í að verðlauna slíkt starf.

Hér að neðan má sjá lista yfir styrkþegar og örstutta lýsingu á verkefnunum sem hlutu styrk.
Amtsbókasafnið Foreldramorgnar á safninu þar sem boðið er reglulega upp á fræðslu fyrir foreldra á hlutlausum stað, þeim að kostnaðarlausu.
Anna María Alfreðsdóttir Afreksstyrkur - Bogfimi
Anna María Hjálmarsdóttir Blönduð sýning "Helvítis krabbamein"
Arfur Akureyrarbæjar. Fyrirlestrar, námskeið og sögugöngur þar sem saga Akureyrar verður í brennidepli, ekki aðeins byggingarsaga og húsagerðarlist heldur margbreytilegt líf fólksins í bænum og aðstæður þess.
Björgunarsveitin Týr á Svalbó Unglingastarf.
Braggaparkið (Eiki Helgason ehf) Opnir dagar í Braggaparkinu - frítt inn svo fólk geti mætt, prófað og kynnt sér aðstöðuna.
Bryndís Fjóla Pétursdóttir Lystigarður með Álfum - Verkefnið gengur út á að safna heimildum, staðsetningum og hanna yfirlitskort af Lystigarði Akureyrar, með áherslu á bústaði álfa og huldufólks sem þar búa.
DSA Foreldrafélag Undankeppni Dance World Cup.
Eigin herra ehf Þýðingar á greinum Lesia Moskalenko en hún var blaðamaður í Úkraínu en er nú flóttamaður á Akureyri vegna stríðsins.
Eva Wium Elíasdóttir Afreksstyrkur - Körfubolti.
Ferðafélagið Hörgur Uppbygging og endurbætur á Baugaseli í Barkárdal.
Ferðamálafélag Hríseyjar Hinsegin helgi í Hrísey í júlí 2023.
Fimleikafélag Akureyrar Þjálfara- og dómaranámskeið.
Fræðslu- og lýðheilsusvið Akureyrarbæjar Móðurmálskennsla fyrir flóttabörn frá Úkraínu, Venesúela, Afganistan og Sýrlandi.
Gellur sem mála í bílskúr Myndlistarsýning á Dekurdögum 2023 til að heiðra minningu Bryndísar Arnardóttur (Billu) sem lést úr krabbameini í ágúst sl.
Gígja Björnsdóttir Afreksstyrkur - Skíðaganga
Gísli Sigurgeirsson Gerð heimildarmyndar þar sem fjallað er um prentverk á Akureyri, hestamennsku, skógrækt í Fnjóskadal, söng og sitthvað fleira en kjarninn í sögu myndarinnar er lífshlaup Þórs Sigurðarsonar.
Handbolta unglingaráð Þórs Þjálfaranámskeið.
Heilsu- og sálfræðiþjónustan Norðurljósasjóður - Stuðningur við börn og ungmenni sem eru syrgjendur, eru sjálf að fást við alvarleg veikindi eða eiga nákominn aðstandanda sem er að fást við lífsógnandi sjúkdóm.
Hinsegin FÉLAK Fræðsluerindi um hinsegin málefni, bæði fyrir foreldra og ungmenni.
Hjálpræðisherinn á Akureyri Fjölskyldustundir þar sem boðið er upp á dagskrá og heitan mat, þátttakendum að kostnaðarlausu. Nýtist ekki síst innflytjendum til að kynnast heimafólki, æfa sig í íslensku og mynda tengsl í samfélaginu.
Hlíðarskóli Kaup á búnaði til kennslu og sköpunar sem fylgir ekki hefðbundnu skólastarfi.
Hnefaleikadeild Þórs Hnefaleikaskóli fyrir unglinga.
Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri Kaup á hryggsjá fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri.
Hryggsjá er einskonar siglingartæki fyrir skurðlækna sem sérhæfa sig í bakaðgerðum.
Tækið er það fyrsta sinnar tegundar hér á landi og mun breyta miklu fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri.
HÆLIÐ - setur um sögu berklanna Heimboð til 6. bekkinga í grunnskólum landshlutans þar sem þeim er boðið á leikna fræðslu um breklana.
Ingibjörg Anna Sigurðardóttir Sundsæla Íbbu - Sundleikfimi í Sundlaug Akureyrar.
Íunn Eir Gunnarsdóttir Útgáfa á bókinni "Félagsfærnifjör - kennsluhandbók fyrir fagfólk" sem gefin verður til allra grunnskóla og frístundaheimila á landinu.
íþróttafélagið Akur Norðurlandamót fatlaðra í boccia í Danmörku og endurnýjun á bocciasettum.
Jón Haukur Unnarsson Tónleikaröðin "Mannfólkið breytist í slím 2023" sem stuðlar að uppbyggingu grasrótarmenningar á Norðurlandi eystra.
Jón Þórarinsson (f.h. undirbúningsnefndar) Minnisvarði gangnamannsins við Tungurétt í Svarfaðardal í tilefni af 100 ára afmælis Tunguréttar.
KA Unglingaráð handknattleiksdeildar Merktir æfingagallar fyrir iðkendur hjá KA og KA/Þór í handbolta.
Kaktus, menningarfélag Styrkur til að tryggja áframhaldandi aðgengi jaðarlistafólks og ungra og upprennandi listamanna að sýningarhaldi í bland við reyndara og lengra komið listafólk.
Karlakór Eyjafjarðar Tónleikahald.
KFUM og KFUK Akureyri Tækjakaup vegna æskulýðsstarfs fyrir börn og unglinga í Sunnuhlíð.
Kór eldri borgara - Í fínu formi. Söngferð í lok vetrar.

Las Lesas útgafa

Ritlistasamkeppni fyrir börn í 5. bekk í grunnskólum Akureyrar og nágrennis þar sem unnið er með þemun einelti, vinátta og samfélagsmiðlar. Sagan sem sigrar verður gefin út og haldið útgáfupartý.
Leikfélag Menntaskólans á Akureyri Vegna uppfærslu á Footloose vorið 2023.
Leikfélag Verkmenntaskólans á Akureyri Vegna uppfærslu á gamanleikritinu Bót og betrun vorið 2023.
Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri Kaup á þrívíddargleraugum til að nýta með öðrum tækjum á Snjallvagninum sem miðar að því að efla kennara í að nýta tækni í skólastarfi. Í vagninum eru ýmis nýstárleg og spennandi kennslutæki á borð við róbóta og tæknilegó.
Rafíþróttadeild Þórs Markaðssetning starfs með áherslu á að auka þátttöku stúlkna.
Rauði krossinn við Eyjafjörð Íslenskuþjálfun - veita innflytjendum aðstoð við að tileinka sér íslensku auk þess að efla tengslanet og veita félagslegan stuðning.
Rebekka Kristín Garðarsdóttir Merkja stígakerfi skógarins með litakerfi líkt og þekkist víða í skógum erlendis svo einfalt sé fyrir gesti að velja sér hlaupa-, göngu- eða gönguskíðahring við hæfi, með tilliti til lengdar og erfiðleikastigs.
Reiðskólinn í Ysta-Gerði Reiðnámskeið þar sem börn með sérþarfir s.s. einhverfu eða kvíða fá sérstakan stuðning.
Safnaklasi Eyjafjarðar Eyfirski safnadagurinn í apríl 2023
Sesselía Ólafs Verkið "Móðir, kona, meyja" er fræðandi tónlistaruppistand sem fjallar um kvenleika og konur í nútíma og fortíð.
Síðuskóli Fjölgun hreyfistunda barna í skólanum.
Sjálfsrækt ehf. Bætum lífi í árin - leiðir að vellíðan fyrir aldraða. Opnir ókeypis fyrirlestrar fyrir eldri borgara á Akureyri og nágrenni um heilsueflandi aðferðir.
Skautafélag Akureyrar - Íshokkí deild Rútuferðir fyrir börn í 2.-4. bekk frá grunnskólum bæjarins að og frá Skautahöllinni í tengslum við æfingar.
Skíðafélag Ólafsfjarðar Uppbygging á skíðasvæðinu í Tindaöxl - Framkvæmdir við æfingasvæði barna.
Skógræktarfélag Eyfirðinga Bætt aðstaða í Laugalandsskógi á Þelamörk, bæði í forvarnarskyni en einnig til að bæta aðstöðu til útivistar í skóginum.
Stígamót Netþjónustan "Sjúkt spjall" fyrir ungmenni á aldrinum 13-20 ára.
Súlur Vertical Auka hliðarviðburði fjallahlaupsins sem ætlaðir eru til að auka áhuga barna og fullorðinna á útivist og hreyfingu í nágrenni Akureyrar.
Svanhildur Daníelsdóttir Bæta aðgengi að Klukkustrengjasafni sem staðsett er í Hrísey.
Taekwondo Deild Þórs Endurnýjun á æfingabúnaði.
Ungmennahúsið Akureyrar (í Rósenborg) Bæta æfingaaðstöðu hljómsveita og myndskreyta veggi.
Útgerðarminjasafnið á Grenivík Uppbygging á sjóðbúð fyrir Hermann TH34 sem er 100 ára gamall súðbyrðingur sem gerður var upp á síðasta ári.
Verkmenntaskólinn á Akureyri - Sérnámsbraut Forrit til að þjálfa augnstýrifærni sem er grundvöllur þess að hægt sé að nota tjáskiptatölvu fyrir þá nemendur sem eiga ekki rödd eða nota hana ekki af einhverjum ástæðum.
WindWorks hátíðið (Pamela De Sensi, Daníel Þosteinsson og Petrea Óskarsdóttir) Tónlistarhátíðin "WindWorks í Norðri 2023" sem helguð er blásturshljóðfærum. Tónleikarnir fara fram á mismunandi söfnum á Norðurlandi.