7. jún 2018

Umhverfisátak Norðurorku

Starfsfólk Norðurorku, makar og börn að loknu umhverfisátakiEftir vinnu í gær breyttist hópur starfsfólks Norðurorku, auk maka og barna, í „grænan her" og tók heldur betur til hendinni. Hópurinn skipti með sér verkum og fór í næsta nágrenni við höfuðstöðvar Norðurorku.

Á vorin bíða ýmis verkefni en eitt af þeim er að fegra umhverfið með því að tína upp rusl sem finna má á víð og dreif eftir veturinn. Því miður er það svo að rusl fýkur út um víðan völl og að því komst ruslatínslufólk Norðurorku fljótlega í gær. Það kom fólki á óvart hversu mikið rusl reyndist vera á svæðinu, ekki síst plast en einnig fúaspýtur, eldhúsáhöld, rúmdýna og meira að segja eitt stykki baðker sem hafði verið skilið eftir á víðavangi! Á tveimur tímum var ógrynni af rusli safnað saman en á myndinni hér til hægri má sjá öfluga sjálfboðaliða í lok dags. HÉR má sjá fleiri myndir frá deginum.  

Umhverfismál hafa á undanförnum árum fengið aukið vægi hjá Norðurorku og rímar þetta ruslasöfnunarátak vel við umhverfisstefnu Norðurorku. Fyrirtækið leggur áherslu á virðingu við náttúruna og jákvætt kolefnisfótspor en í því felst m.a. að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Í þessu sambandi má geta þess að um þriðjungur þjónustubíla Norðurorku gengur fyrir vistvænum orkugjöfum, ellefu metangasbílar og einn rafmagnsbíll.

Slíkur ruslahreinsunardagur Norðurorku hefur ekki verið árviss viðburður en í ljósi þess hversu mikið rusl safnaðist á aðeins veimur tímum í gær var hið vaska ruslatínslufólk sammála um að þetta þyrfti að hafa sem fastan lið á hverju vori.

Að loknu góðu dagsverki var sjálfboðaliðunum að sjálfsögðu boðið upp á pizzu.