3. sep 2022

Mat á mengunarhættu á vatnsverndarsvæðum Akureyringa

Vatnsverndarsvæði Akureyringa
Vatnsverndarsvæði Akureyringa

Um 75-80% neysluvatns bæjarbúa Akureyrar kemur frá tveimur lindasvæðum sem staðsett eru norðan og sunnan við skíðasvæði Hlíðarfjalls, Sellandslindir á Glerárdal og Hesjuvallalindir í Hlíðarfjalli. Glerárdalur og Hlíðarfjall eru vinsæl útivistarsvæði og á undanförnum árum hefur Norðurorka unnið að því að fræða almenning um mikilvægi vatnsverndarsvæðanna sem skilgreind eru til verndar vatnslindunum og heilnæmi neysluvatns Akureyrar.

Í því skyni að fá gleggri mynd af lindunum sjálfum og eðli þeirra (m.a. út frá grunnvatnsstraumum) fékk Norðurorka ráðgjafafyrirtækið Vatnaskil til að leggja mat á hættu vegna mengunarslyss innan vatnsverndarsvæðanna. Lagt var mat á áhrif mismunandi mengunarslysa allt frá smáum slysum, vegna vélsleða eða sambærilegra ökutækja, til stærri slysa, t.a.m. vegna olíuleka frá vinnuvélum.

Niðurstöður Vatnaskila sýna að smærri slys sem verða innan 500m ofan við lindasvæðin geta haft áhrif á lindirnar í allt að 14 ár. Eftir því sem mengunarslys verða stærri og alvarlegri geta þau valdið meiri mengun sem varir í lengri tíma. Stærri mengunarslys geta valdið olíumengun í vatnslind í meira en 30 ár og skiptir þá engu máli hvar innan vatnsverndarsvæðisins mengunin verður. 

Mengunarslys innan vatnsverndarsvæðanna geta haft mikil áhrif á lindasvæðin og gert þau ónothæf til lengri tíma. Slíkt yrði stórmál fyrir íbúa og atvinnulíf á Akureyri, ekki síst þau fjölmörgu matvælafyrirtæki sem hér starfa. Mikilvægt er því að virða bann við almennri umferð vélknúinna ökutækja innan vatnsverndarsvæða.

Verði mengunarslys innan vatnsverndarsvæðis er lykilatriði að tilkynna það strax til Norðurorku í síma 460-1300 (eða í síma 892-7305 utan dagvinnutíma) svo hægt sé að bregðast við og fjarlægja mengunarvaldinn.

Hjálpumst að við að standa vörð um vatnsverndarsvæðin - Það er hagur okkar allra.

Hér má sjá nánari upplýsingar um vatnsverndarsvæði á starfssvæði Norðurorku.