3. jan 2021

Verðskrárbreytingar 1. janúar 2021

Miklar innviðaframkvæmdir hafa verið í gangi í flestum veitum Norðurorku undanfarin ár og er þar bæði um að ræða nýframkvæmdir og viðhald. Eitt af stærstu verkefnunum félagsins þessi árin er að auka orkumátt hitaveitunnar með lagningu nýrrar hitaveitulagnar frá Hjalteyri og byggingu nýrrar dælustöðvar þar en auk þess má nefna byggingu og rekstur nýrrar hreinsistöðvar fráveitu sem tekin var í notkun í lok árs 2020. Nú má segja að styttist í lokin á nokkrum stórum verkefnum undanfarinna ára og komið að endurgreiðslum á lánum vegna þeirra.

Á grundvelli greiningar á rekstrar­­­kostnaði og vísitölum og að teknu tilliti til fjárfestingaáætlana, sérstaklega í hitaveitu og fráveitu, var niðurstaða stjórnar Norðurorku að hækka verð­skrár fyrirtækisins frá og með 1. janúar 2021 samkvæmt eftirfarandi:

Hitaveita hækkar um 4,5%

Rúmmetraverð er 129,12 kr. í öllum veitum nema á Ólafsfirði kr. 79,02 (lægra hitastig á vatni) og í Reykjaveitu en þar er innheimt orkugjald miðað við hitastig bakrásar. Við bætist umhverfis- og auðlindagjald 2% og virðis­aukaskattur 11%.
Rökin fyrir hækkun hitaveitunnar umfram verðþróun er m.a. sú gríðarstóra framkvæmd að sækja aukið jarðhitavatn og auka flutningsgetu aðveitulagnarinnar frá Hjalteyri. Framkvæmdinni er skipt í fimm áfanga og er áfanga þrjú nýlokið. Með verkefninu er verið að svara þörf samfélagsins fyrir heitt vatn næstu 15-20 árin en sjálf aðveitulögnin er framkvæmd sem mun duga til áratuga. Heildarkostnaður verkefnisins er áætlaður allt að 2.700 milljónir króna. Hér ber að geta að utan verðbreytinga, greiðist framkvæmdin að einhverju leyti niður með rafmagnssparnaði vegna hagstæðari dælingar auk aukningar í sölu á heitu vatni.

Rafveita hækkar um 3,2%

Almennt verð dreifingar er 4,03 kr. á kWst., flutningsgjald Landsnets kr. 1,95 á kWst. og jöfnunargjald í ríkissjóð er kr. 0,34 á kWst. eða samtals kr. 6,32 á kWst. Við bætist virðisaukaskattur 24% á almenna raforkudreifingu og 11% á hitataxta.

Vatnsveita hækkar um 2,5%

Vatnsgjald er kr. 144,8 á hvern fermetra húsnæðis auk fastagjalds sem er kr. 9.656 á matseiningu íbúðarhúsnæðis og kr. 19.312 á matseiningu atvinnuhúsnæðis. Vatnsgjöld eru innheimt samhliða fasteignagjöldum. Ekki er greiddur virðisaukaskattur af vatnsgjöldum.

Fráveita hækkar um 11%

Fastagjald á hverja matseiningu íbúðarhúsnæðis er kr. 10.807 og kr. 255,34 á hvern m². Árlegt fráveitugjald á annað húsnæði en íbúðarhúsnæði er kr. 10.807 á matseiningu og kr. 255,34 á hvern m². Fráveitugjöld eru innheimt samhliða fasteignagjöldum. Ekki er greiddur virðisaukaskattur af fráveitugjöldum.
Rökin fyrir hækkun verðskrár fráveitu, umfram verðþróun, er bygging og rekstur fráveituhreinsistöðvar. Rekstrarkostnaður stöðvarinnar er áætlaður um 35-40 milljónir króna árlega sem svarar til um 7% af verðhækkuninni. Byggingarkostnaður er rúmlega 1.000 milljónir króna svo ljóst er að verðskrárbreytingin ein og sér dugar vart til greiðslu á rekstrarkostnaði og uppgreiðslu framkvæmdarinnar innan ásættanlegra tímamarka. Það er stór áfangi fyrir samfélagið við Eyjafjörð að fráveituvatnið sé nú loksins hreinsað áður en því er veitt út í fjörðinn og standist þannig þær kröfur sem löggjafinn hefur sett um fráveituhreinsun.

Athugið að verð eru birt með fyrirvara um innsláttarvillur.

Hér má sjá allar verðskrár Norðurorku