Það er að mörgu að hyggja í rekstri dreifiveitu rafmagns enda um að ræða einn af grunninnviðum númtímasamfélagsins sem segja má að sé órjúfanlegur þáttur af okkar daglega lífi. Til viðbótar við daglegan rekstur kerfanna bætist ýmiskonar reglubundið viðhald við sem allt miðar að því að bæta afhendingaröryggi og lágmarka líkur á fyrirvaralausu rofi (bilun) í rafveitu.
Á morgun, fimmtudag, verður unnið að endurnýjun búnaðar í dreifistöð 60 sem stendur við Hlíðarlund. Segja má að um framhaldsvinnu sé að ræða en laugardaginn 28. janúar sl. var skipt um háspennufelt í sömu dreifistöð. Nú er komið að því að endurnýja lágspennufeltið en eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er það eldra komið til ára sinna. Til gamans má geta að rofafelti sem þessi eru endurnýjuð á einhverra áratuga fresti.
Nýji búnaðurinn er stærri og býður uppá meiri möguleika þegar kemur að rekstri dreifikerfisins til dæmis þegar kemur að vöktun á kerfinu. Auk þess er nýji búnaðurinn mun öruggari, bæði þegar horft er til rekstraröryggis og ekki síður til öryggis starfsfólks.
Vegna vinnunnar þarf að taka rafmagnið af í hluta Lundahverfis (sjá HÉR). Viðskiptavinir sem þjónusturofið snertir hafa verið upplýstir með sms skilaboðum en einnig er haft samráð við stærri aðila s.s. skóla og leikskóla í síma.
Það er að mörgu að hyggja við undirbúning verka sem þessara og margir sem koma að. Undanfarnar vikur hefur verið unnið að því útbúa nýja lágspennufeltið á rafvirkjaverkstæði Norðurorku og aðlaga það að dreifikerfi svæðisins. Þjónustuver sér um að tilkynna viðskiptavinum um rafmagnsrof, sem er óhjákvæmilegt á meðan unnið er við dreifikerfið en að vinnunni sjálfri í dreifistöðinni á fimmtudag kemur starfsfólk frá nokkrum einingum innan Norðurorku svo sem fasteignaþjónustu, rafmagnsþjónustu og framkvæmdaþjónustu.
Þegar unnið er við dreifikerfi rafmagns er unnið eftir stöðluðu verklagi í þeim tilgangi að tryggja sem best öryggi fólks sem kemur að vinnunni. Áður en vinna hefst er rafmagnið tekið af stöðinni og þar með þeim viðskiptavinum sem henni tengjast. Hver og einn rafvirki sem kemur að vinnunni setur sinn persónulás á útslegna rofann áður en vinna hefst og tryggir sig þannig gegn því að rofinn geti verið settur inn á meðan ennþá er unnið við kerfið. Rofann er ekki hægt að setja inn fyrr en allir hafa fjarlægt sinn lás eftir að vinnu lýkur. Norðurorka hefur unnið með LMP kerfið (læsa, merkja, prófa) í nokkur ár og er óhætt að segja að þar með hafi öryggi við störf í rafveitunni aukist til muna.
Um leið og við minnum á mikilvægi þess að búnaður sé endurnýjaður í dreifikerfinu til að hægt sé að tryggja sem best afhendingaröryggi rafmagns alla daga ársins, vonumst við til þess að vinnan og tilheyrandi rafmagnsleysi valdi sem minnstum óþægindum fyrir viðskiptavini okkar.
Opnunartími í afgreiðslu:
Alla virka daga kl. 8-12 og 13-15
Opnunartími þjónustuborðs:
Mánudag til fimmtudags kl. 8-12 og 13-16
Föstudag kl. 8-12 og 13-15:20