1. feb 2018

Vöruflutningabíll valt inn á vatnsverndarsvæði Norðurorku

Aðfaranótt laugardagsins 27. janúar sl. valt vöruflutningabíll í Hörgárdal, inn á vatnsverndarsvæði Norðurorku. Rétt er að taka fram að ökumaður bílsins slapp ómeiddur.

Lögreglan hafði samband við bakvakt Norðurorku sem fór á staðinn og tók þátt í aðgerðum sem gengu vel. Viðbragðsaðilar sem að komu störfuðu sem ein heild og voru meðvitaðir um mikilvægi þess að bregðast hratt og örugglega við þegar slys af þessu tagi verður inn á vatnsverndarsvæði. Um 10 tonn af menguðum jarðveg voru flutt af svæðinu en áætlað er að um 100 lítrar af olíu hafi lekið af bílnum. Í kjölfarið var svo unnið að því að hreinsa upp farm bílsins o.fl..

Vatnsverndarsvæðið á Vöglum sér Akureyringum fyrir hreinu og ómeðhöndluðu neysluvatni og er svæðið mikilvægur þáttur í að uppfylla vatnsþörf íbúa bæjarins og þeirra fjölmörgu fyrirtækja, ekki síst matvælafyrirtækja, sem þar starfa. Þjóðvegur nr. 1 liggur í gegnum vatnsverndarsvæðið, meðfram brunnsvæðinu.

Norðurorka hefur á síðustu árum átt gott samstarf við viðbragðsaðila á svæðinu og 112 Neyðarlínuna varðandi viðbrögð við slysum á vatnsverndarsvæðum. Ef óhapp, sem ætla má að geti verið mengunaróhapp, verður innan vatnsverndarsvæðisins og hringt er í 112 þá fær Norðurorka upplýsingar um það, getur brugðist við og komið þannig í veg fyrir að mengun berist í vatnsbólin. 
Mikilvægt er að vegfarendur séu meðvitaðir um að þeir aki í gegnum vatnsverndarsvæði og hafi í huga að jafnvel það sem gæti virst minniháttar óhapp getur gert vatnsbólin óhæf til vinnslu neysluvatns í langan tíma. Slíkt yrði stjórmál fyrir íbúa og atvinnulíf á Akureyri.  

Hjálpumst öll að við að standa vörð um vatnsauðlindina sem er ein af okkar verðmætustu auðlindum.

 

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá vatnsverndarsvæðið, fjarsvæðið (í raun allt vatnasvið Hörgár) nær frá Vaglasvæðinu og alla leið upp á Öxnadalsheiði, grannsvæðið er merkt fjólublátt á myndinni og brunnsvæðið er hluti af því.