28. jún 2018

Metanbíll Norðurorku tekur þátt í WOW Cyclothon keppninni í ár

WOW cyclothon er stærsta götuhjólreiðakeppni á Íslandi og hefur hún verið haldin árlega frá 2012. Hjólað er hringinn í kringum Ísland með boðsveitarformi þar sem liðsfélagar skipta á milli sín kílómetrunum 1358.

Keppendur í WOW Cyclothon keppast ekki einungis við að verða fyrstir í mark heldur fer fram keppni í áheitasöfnun þeirra á milli þar sem liðin leitast við að ná sem flestum áheitum til styrktar því málefni sem keppnin styrkir hvert ár. Í ár hjóla keppendur til styrktar Slysa­varna­fé­lags­ins Lands­bjarg­ar og fer keppnin fram dagana 26. – 30. júní.

Heavy metan er 10 manna lið frá SORPU sem tekur þátt í WOW Cyclothon þetta árið.  Liðið ætlar að hjóla hringinn en hjólabíll liðsins er Ford 150 metanbíll í eigu Norðurorku. Hjólabíllinn er því keyrður á metaneldsneyti sem framleitt er annarsvegar af SORPU í Álfsnesi og hinsvegar af Norðurorku sem vinnur metangas frá gömlu sorphaugum Akureyringa á Glerárdal.

Fyllt var á bílinn áður en lagt var af stað frá Reykjavík en einnig voru meðferðis gaskútar til áfyllingar. Um klukkan níu í morgun hjóluðu liðsmenn Heavy metan í gegnum Akureyri og var þá fyllt á hjólabílinn í leiðinni.

Á meðfylgjandi myndum má sjá hjólabílinn þegar hann nálgaðist Akureyri en einnig má sjá hluta liðsmanna í Heavy metan liðinu slaka örlítið á og kæla sig á meðan fyllt var á bílinn á metanstöð Norðurorku við Súluveg.