25. ágú 2023

Yfirbreiðslur á sundlaugar - ábyrg orkunotkun

Norðurorka hefur fengið verkfræðistofuna Eflu til að gera athugun á varmatapi sundlauga og áhrif þess að nota yfirbreiðslur þegar laugarnar eru ekki í notkun. Sundlaugar eru víða á meðal stærstu viðskiptavina hitaveitna og því til mikils að vinna að draga úr orkutapi sem leiðir til minni notkunar á hitaveituvatni í laugunum. Kuldi og vindur eru stærstu áhrifaþættirnir í varmatapi og gefa reynslutölur til kynna að um geti verið að ræða allt að 33% sparnað miðað við hefðbundinn opnunartíma sundlauga. Því er ljóst að stór ávinningur getur falist í því að nota yfirbreiðslur og mikilvægt er að velja vandaðan búnað sem krefst ekki mikillar vinnu starfsfólks. 

Áætlað að yfirbreiðslur dragi verulega úr orkutapi

Áætlað er að Sundlaug Akureyrar gæti sparað um 3.500 rúmmetra af hitaveituvatni á mánuði yfir vetrartímann með yfirbreiðslu yfir báðar laugar á næturnar. En samsvarandi sparnaður fyrir laugina á Þelamörk er áætlaður um 1.400 rúmmetrar á mánuði. Sundlaugin á Hrafnagili hefur notað yfirbreiðslu um árabil og hefur sú reynsla gefið góða raun.

Mikilvægt að unnið sé með notkunarhliðina á heitu vatni

Íslendingar eru lánsamir að hafa aðgang að þeirri einstöku auðlind sem jarðhitavatn er, en um 90% heimila landsins eiga kost á að nýta sér það. Mikil aukning er í heitavatnsnotkun í samfélaginu, langt umfram fólksfjölgun. Því hefur hitaveitan þurft að vera á fullum afköstum yfir köldustu vetrarmánuðina og verið komin að þolmörkum. Mikilvægt er að samhliða aukinni öflun sé unnið frekar með notkunarhliðina og að allra leiða sé leitað til ábyrgrar orkunotkunar.

Staða hitaveitu á starfssvæði Norðurorku