Ný Hjalteyrarlögn

Vinnslusvæðið á Hjalteyri og áskoranir við öflun á heitu vatni

Jarðhitasvæðið á Hjalteyri hefur verið stærsta vinnslusvæði Norðurorku í rúmlega tuttugu ár og gefur um það bil 60% af hitaveituvatni Akureyringa. Frá því að vinnsla hófst á Hjalteyri um síðustu aldamót hefur heitavatnsnotkun á starfssvæði Norðurorku tvöfaldast og yfir köldustu vetrardagana má litlu útaf bregða í rekstrinum. Í ofanálag komu nýlega í ljós vísbendingar um aukið klóríðmagn í heita vatninu sem benda til snefilmagns af sjó. Slíkt innstreymi gefur til kynna að jarðhitasvæðið á Hjalteyri sé nú orðið fullnýtt nema takist að vinna bug á innstreymi sjávar í kerfið. Í ljósi breyttrar stöðu biðlar Norðurorka til fólks að fara vel með heita vatnið og huga að notkuninni. 

Rannsóknir, undirbúningur og vinna við önnur svæði

Hin nýja Hjalteyrarlögn mun, þrátt fyrir breytta stöðu á Hjalteyri, þjóna sínu hlutverki. Til að mæta vaxandi heitavatnsþörf í samfélaginu hefur rannsóknum, undirbúningi og vinnu við önnur svæði í Eyjafirði verið hraðað. Nú standa yfir rannsóknir á jarðhita í Eyjafirði þar sem boraðar eru um það bil 30 hitastigulsholur sem eru fyrstu skrefin í því að staðsetja líklegan nýtanlegan jarðhita. Norðurorka hefur aukið umtalsvert við fjármagn til rannsókna, þróunar og nýsköpunar. Í lok árs 2023 hófst vinna hófst við jarðhitaleit utar í firðinum, nánar til tekið að Ytri Haga. Þar er nú þegar vinnsluhola sem þjónar nærliggjandi bæjum en frekari rannsóknir benda til þess að hægt sé að vinna mun meira heitt vatn á svæðinu. Ef áætlanir ganga eftir verða byggð dælustöð og tankur í landi Syðri Haga og þaðan lögð lögn til Hjalteyrar. Frá Hjalteyri mun hin nýja Hjalteyrarlögn taka við og flytja vatnið áfram til Akureyrar og nágrannasveitarfélaga. Við borun eftir heitu vatni eru brýnt að hafa í huga að verið er að fást við síbreytilega náttúru þar sem mörg ár getur tekið að læra inn á hvert svæði.

Með nýrri Hjalteyrarlögn er um gríðarlega stórt verkefni að ræða og mikla fjárfestingu eða rúma tvo milljarða í heild með borunum og dælubúnaði. Verkefninu er áfangaskipt.

Forsagan

Vinnsla á heitu vatni hófst á Hjalteyri árið 2002. Árið 2005 var annarri vinnsluholu bætt við og var hún hugsuð fyrst og fremst sem varahola. Með vaxandi heitavatnsntokun á þjónustusvæði Norðurorku varð þróunin sú að nota þurfti báðar holurnar allan ársins hring enda stendur Hjalteyrarsvæðið undir um 60% af því heita vatni sem notað er á Akureyri.  Ástæða mikillar afkastagetu jarðhitakerfisins við Hjalteyri er talin sú að lekt bergs sé betri og aðstreymi vatns greiðara en þekkist á öðrum vinnslusvæðum Norðurorku. 

Flutningsgeta aðveitunnar frá Hjalteyri hefur hinsvegar verið takmarkandi þáttur í nýtingu vinnslusvæðisins þar sem eldri lögn (300 mm) ber ekki allt það heita vatn sem bærinn þarf á að halda á álagstímum. Því var farið í að leggja nýja aðveituæð frá Hjalteyri til Akureyrar og verður nýja aðveituæðin (500 mm) hrein viðbót þar sem eldri lögnin verður áfram nýtt. 

Í kjölfar vaxandi heitavatnsnotkunar á starfssvæði Norðurorku var þriðja holan boruð á Hjalteyri vorið 2018. Holan stóð fyllilega undir væntingum og sýndu niðurstöður rannsókna sem ÍSOR framkvæmdi fyrir Norðurorku að hún væri ein aflmesta lághitahola sem boruð hefur verið á Íslandi. 

Fyrsti áfangi árið 2018 - Lagning innanbæjar á Akureyri

Fyrsti áfangi verkefnisins var lagning innan bæjarmarka Akureyrar, þ.e. frá dælustöð Norðurorku á Glerártorgi og út fyrir Hlíðarbraut. Umræddur áfangi var nokkuð snúinn vegna umferðar og óvissu með legu eldri lagnakerfa í bænum. Allra flóknasti hluti þessa áfanga var lagning Hjalteyrarlagnar undir botn Glerár. Farið var í þá framkvæmd að hausti þegar dregið hafði úr vatnsrennsli árinnar. Áin var þá stífluð og leidd í gegnum þrjú stór rör. Sökkum var komið fyrir á árbotni og lögnin síðan hífð á sinn rétta stað.

Annar áfangi árið 2019 - Lagning frá Hjalteyri að Ósi 

Annar áfanginn var unninn sumarið 2019 þegar lögnin var lögð um 6 km leið frá Hjalteyri að Ósi, sem er skammt norðan Hörgár. 

Þriðji áfangi árið 2020 - Lagning frá Ósi að Skjaldavík 

Þriðji áfangi verkefnisins fól í sér lagningu frá bænum Ósi að Skjaldarvík. Lögnin liggur skammt vestan Skipalóns og við þverun Hörgár fer hún í gegnum hólma sem þar er í ánni. Ferðalagið undir ána var því tvískipt með áfangastað í hólmanum. Stóran skurð þurfti til að hægt væri að leggja lögnina undir ána. Þar sem hann var dýpstur var hann um 5 metra djúpur, jarðvegur sendinn og malarkenndur þannig að bakkarnir runnu mikið niður og úr varð afar breiður skurður. Notaðar voru 4 dælur til að dæla því sem lak í gegnum jarðveginn úr skurðinu. Slíkt var nauðsynlegt bæði til að draga úr hruni/sigi úr skurðköntunum sem og til að koma rörinu niður í sökkurnar því flotkrafturinn í rörinu er mikill.

Fjórði áfangi - bygging dælustöðvar og skilju á Hjalteyri

Fjórða áfanga var frestað eftir að í ljós komu vísbendingar um aukið klóríðmagn í heita vatninu sem benda til snefilmagns af sjó. 

Fimmti áfangi árið 2023 - Lagning frá Skjaldarvík til Akureyrar

Vor 2023 hófst vinna við fjórða og síðasta áfanga nýrrar aðveituæðar milli Akureyrar og Hjalteyrar. Í þessum áfanga verkefnisins er kaflinn frá Skjaldarvík að Hlíðarbraut á Akureyri kláraður en hann er um 5,1 km að lengd. Um er að ræða 500 mm lögn í 710 mm einangrunarkápu og sá verkfræðistofan Verkís um hönnun lagnarinnar. Steypustöðin Dalvík sér um lagningu aðveituæðarinnar og undirverktakarnir þeirra, Olafson Custom og Útrás, sjá um samsuðu á lögnunum. Rörin koma frá röraverksmiðjunni Set á Selfossi og sjá starfsmenn þeirra um að ganga frá einangrun á samskeytum.

Myndir frá verkefninu