Viðmiklar framkvæmdir í Löngumýri

Í sumar og haust stóðu yfir viðamiklar framkvæmdir í Löngumýri. Unnið var í öllum fjórum veitunum: hitaveitu, rafveitu, vatnsveitu og fráveitu.

Tíðin var góð fram eftir hausti og því var hægt að halda áfram framkvæmdum fram í desember. Náðst hefur að endurnýja lagnir og spennubreyta upp eftir götunni (frá norðri til suðurs) að húsi númer 16. Haldið verður áfram með Löngumýri næsta sumar.

Hitaveita

 Í Löngumýri hafa tveir gamlir hitveitubrunnar verið fjarlægðir, enda er þar um eitt af viðhaldsverkefnum Norðurorku að ræða. Hluti af hönnun hitaveitunnar á árum áður voru svonefndir hitaveitubrunnar. Um er að ræða ferköntuð, steypt jarðhýsi þar sem ýmsar tengingar koma saman, þenslustykki, kranar og fleira. Með breyttri tækni eru þessir brunnar orðnir úreltir og langtímaáætlanir gera ráð fyrir að þeir verið allir lagðir af. Smátt og smátt er unnið að því að fjarlægja þá úr dreifikerfi hitaveitu, en það mun taka sinn tíma enda eru þeir margir. Brunnar þessir eru afar óheppileg vinnusvæði auk þess sem þeir eru viðkvæmir fyrir bilunum, því er mikilvægt að skipta þeim út. Þannig bætum við afhendingaröryggi hitaveitu, öryggi starfsfólks sem og vinnuaðstæður.

Sjá nánari upplýsingar um brunnafjarlægingar hér.

Rafveita

Stofnlagnir og heimtaugar verða endurnýjaðar og settir nýjir götukassar. Samhliða þessum breytingum mun rafmagnsheimtaugum verða spennubreytt í TN-C spennukerfi (3N 400/230 V) á afmörkuðu svæði en þeir húseigendur sem málið varðar mun verða upplýstir sérstaklega um stöðu mála.

Hvað eru spennubreytingar?

Á Akureyri eru tvö mismunandi kerfi raforku, TT spennukerfi og TN-C spennukerfi. Hið síðarnefnda, TN-C, er almennt í öllum hverfum Akureyrar sem byggð eru eftir um 1970. Eldri hverfi eru að stórum hluta með TT spennukerfi. Öll endurnýjun búnaðar miðast við að TT afleggist og TN-C komi í staðinn.

Sjá nánari upplýsingar um mismunandi kerfi raforku hér.

Vatnsveita

Samhliða spennubreytingum er verið að endurnýja hitaveitulagnir og vatnslagnir eftir því sem þörf krefur.

Fráveita

 Auk ofangreindra framkvæmda verður tækifærið nýtt og nýrri regnvatnslögn bætt við í götuna.

Hvað er regnvatnslögn?

Í öllum nýbyggðum hverfum á Akureyri er tvöfalt fráveitukerfi. Tvö rör frá hverju húsi, annað skólp og hitt regnvatn. Skólplagnir taka við því sem kemur frá salernum, vöskum, sturtum og böðum ásamt því sem kemur frá uppþvottavél og þvottavél. Regnvatnslögnin tekur vatn frá þakniðurföllum, niðurföllum í plönum, drenlögnum sem eru lagðar kringum hús og vatni frá heitum pottum.

Í eldri hverfum bæjarins, þar á meðal í Löngumýri, er einfalt kerfi, þ.e. eitt rör frá hverju húsi sem inniheldur þá bæði skólp og regnvatn. Einfalt kerfi veldur því að vatnsmagn í fráveitukerfinu eykst með tilheyrandi auknu álagi á dælur, lagnir og ekki síst á hreinsistöðina. Þannig er verið að dæla regnvatni, sem mætti í raun fara beint út í sjó, langar leiðir auk þess sem verið er að hreinsa vatn í hreinsistöðinni sem óþarfi er að hreinsa.