5. apr 2019

Aðalfundur Norðurorku hf. 2019

Aðalfundur Norðurorku hf. var haldinn í dag 5. apríl 2019. Eigendur félagsins eru sex sveitar­­félög, Þingeyjarsveit, Grýtubakkahreppur, Svalbarðsstrandarhreppur, Eyjafjarðar­sveit, Akureyrarbær og Hörgársveit.

Rekstur Norðurorku gekk vel á árinu 2018. Ársvelta samstæðunnar var 3,8 milljarðar króna. Hagnaður ársins var 559 milljónir króna eftir skatta og eigið fé  12 milljarðar króna. Á aðalfundinum í dag var ákveðið að greiða hluthöfum 15% arð af hlutafé eða 127 milljónir króna. Samstæðureikningur samanstendur af rekstri Norðurorku og dótturfélagsins Fallorku ehf. auk áhrifa frá hlutdeildarfélögunum Tengir hf. og Norak ehf. en rekstur þeirra allra gekk vel á árinu.

Rekstur samstæðunnar var að mestu í takt við áætlanir. Eigið fé samstæðunnar er eins og áður segir 12 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 64,6%. Í árslok var framkvæmt endurmat á veitukerfum og fasteignum móðurfélagsins.  Niðurstaða endurmatsins var að eignir hækkuðu um 3,5 milljarða króna og eigið fé um rúma 3 milljarða króna.

Veltufé frá rekstri var 1,2 milljarðar króna og handbært fé í árslok 665 milljónir króna. Á árinu var skuldabréfaflokkur sem tekin var yfir við kaup á fráveitu Akureyrar að upphæð 2,2 milljarðar króna endurfjármagnaður með nýju 2,6 milljarða króna langtímaláni frá Lánasjóði sveitarfélaga. Þá tók dótturfélagið Fallorka nýtt lán að upphæð 200 milljónir króna. Langtímaskuldir í árslok voru 5,9 milljarðar króna og hækkuðu milli ára en á árinu 2017 færðist stór hluti lánanna sem skammtímaskuldir í ljósi endurfjármögnunar á árinu 2018.

Fjárfesting samstæðunnar í endurbótum á kerfum og nýframkvæmdum var 2,3 milljarðar króna sem var eilítið yfir áætlunum. Til fjárfestinga móðurfélagsins á árinu 2019 eru áætlaðir tæpir 1,8 milljarðar króna, hitaveita 786 milljónir, fráveita 433 milljónir, vatnsveita 113 milljónir, rafveita 121 milljónir og aðrir rekstrarþættir svo sem jarðir og jarðhitaréttindi, húsnæði að Rangárvöllum, bílar og tæki um 258 milljónir króna.

Á árinu lauk dótturfélagið Fallorka við byggingu nýrrar 3,3 MW virkjunar í Glerá sem gangsett var sumarið 2018. Þá lauk borun viðbótarholu á Arnarnesi sem og fyrsta hluta nýrrar Hjalteyrarlagnar. Framkvæmdir við byggingu hreinsistöðvar fráveitu við Sandgerðisbót eru í ferli og eru áætluð verklok sumarið 2020. Á árinu var beislað kalt og heitt vatn úr Vaðlaheiðagöngum en hönnun á framhaldinu er ólokið þ.e. að nýta vatnið og tengja við Vatnsveitu Svalbarðstrandar og Akureyrar.

Hér má sjá ársskýrslu Norðurorku vegna ársins 2018 í PDF formi.

Verkefni næstu ára eru stór og fjárfrek, einkum í fráveitu og hitaveitu. Á árinu 2019 verður farið í annan áfanga Hjalteyrarlagnar frá Hjalteyri að Hörgárósi sem og lögn innan Akureyrar frá Glerárgötu upp Þórunnarstræti að Þingvallastræti. Áætlaður heildarkostnaður verkefnisins, þ.e. lagnir, borun og afleiðuverk er um 2,5 milljarðar.

Þrátt fyrir að stór og mikil verkefni bíði í framtíðinni er það von okkar að verðskrár fyrirtækisins verði til lengri tíma litið með þeim hagstæðustu þegar horft er til fyrirtækja í sambærilegum rekstri. Sem samfélagi og einstaklingum er okkur ætíð hollt að muna að auðlindir okkar í heitu og köldu vatni eru ekki óþrjótandi. Mikið fjármagn þarf til að afla og vinna nýjar auðlindir og til uppbyggingar á kerfum til að auka flutningsgetu þeirra. Sóun á heitu vatni og neysluvatni eykur og hraðar fjárfestingaþörf í innviðum sem aftur kallar á hækkanir á verðskrá félagsins. Því er mikilvægt að halda til haga þeim tækifærum sem felast í því að fara vel með og forðast sóun á auðlindunum.

Í stjórn Norðurorku voru kjörin Eva Hrund Einarsdóttir, Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Hlynur Jóhannsson og Ingibjörg Ólöf Isaksen. Í varastjórn voru kjörin, Gunnfríður Hreiðarsdóttir, Hannes Karlsson, Hilda Jana Gísladóttir, Víðir Benediktsson og Þórhallur Jónsson.

 

Aðalfundur Norðurorku 2019 - forstjóri, stjórnarformaður og fulltrúar hluthafa ásamt ritara aðalfundarins. (Mynd Auðunn Níelsson)