18. nóv 2019

Aflestur og mögulegar breytingar á fjárhæðum orkureikninga

Viðskiptavinir Norðurorku greiða ákveðna upphæð í hverjum mánuði fyrir orkunotkun sína, en í kjölfar aflesturs og uppgjörs á haustdögum kann fjárhæð orkurreiknings að hækka eða lækka.

Hafi orkunotkunin fyrir allt árið verið rétt áætluð í upphafi árs og álesturinn gefi engar breytingar til kynna til aukinnar eða minnkandi orkunotkunar verður reikningurinn sem næst óbreyttur, inneign getur myndast hafi orkunotkunin verið minni en áætlað hafði verið en reikningurinn getur líka hækkað – og í nokkrum tilfellum umtalsvert – hafi orkunotkunin aukist á viðkomandi heimili.

no@no.is og hvetur fyrirtækið fólk til þess að taka myndir af mælunum og senda þær. Þá fer ekkert á milli mála að aflesturinn er réttur. En algengast hefur þó verið að starfsfólk á vegum Norðurorku lesi af mælunum.

Í kjölfar aflesturs eru sendir út uppgjörsreikningar. Leiði aflesturinn í ljós umtalsvert meiri orkunotkun en áætlað hafði verið og viðskiptavinir átta sig ekki á, er gott að hafa samband við þjónustuver fyrirtækisins til þess að fá upplýsingar um hvað skýri aukna orkunotkun og þar með hærri orkureikning.

 

Bylgja Rúna Aradóttir, þjónustustjóri Norðurorku, segir að aukna notkun raforku á heimilum megi í flestum tilfellum rekja til sex eftirfarandi þátta:

  1. Rafmagnsþráður í þakrennum, sem notaður er til þess að bræða klaka sem getur myndast í rennum. Rafmagnsþræðirnir eru orkufrekir og ef þeir eru mikið í gangi er það fljótt að segja til sín í hærri rafmagnsreikningi. Þræðirnir eru í sumum tilfellum tengdir sjálfvirkum rofum sem eiga að slökkva á sér við ákveðinn lofthita. Þess eru dæmi að þessir rofar hafa bilað og straumur verið á rafmagnsþræðinum allt sumarið án þess að húseigendur hafi gert sér grein fyrir því.
  2. Kælitæki sem eru komin til ára sinna og/eða með bilaða pressu þannig að þau ganga viðstöðulaust.
  3. Hitablásarar, sem fólk notar t.d. til þess að hita upp bílskúra eða minni íveruhús, eru orkufrekir.
  4. Súrefnisdælur í fiskabúrum eru orkufrekar.
  5. Það sama á við um súrefnistæki sem fólk þarf í sumum tilfellum að nota á heimilum.
  6. Hleðsla rafmagnsbíls á heimilum kemur fram í hærri rafmagnsreikningi.


Einnig geta orðið frávik í notkun á heitu vatni sem leiða til hærri orkureiknings. Mikilvægt er að fylgjast reglulega með hitastigi á heita vatninu sem annars vegar kemur inn og hins vegar fer út úr húsinu. Á flestum hitveitugreinum segir Bylgja að séu tveir mælar, á öðrum megi sjá hitastig vatnsins sem kemur inn og á hinum hitastig vatnsins sem fer út.  Á Akureyri sé miðað við að vatnið komi 60 til  70 gráðu heitt inn í hús/íbúðina og gott sé að miða við að það fari ekki hærra en 27 gráður út úr húsinu. Fari vatnið mun heitara út úr húsinu sé gott að athuga hvort eitthvað óeðlilegt sé í gangi og þá rétt að kalla til fagmann til þess að yfirfara kerfið. Fari vatnið of heitt út úr húsinu segir Bylgja að nýting þess sé ófullnægjandi og þar með verði hitaveitureikningurinn of hár.

Bylgja vill vekja athygli á því að Norðurorka fylgist ekki með því hversu heitt vatnið fari út úr húsum viðskiptavina og beinir hún því til þeirra að fylgjast vel með mælunum, það sé mikilvægur þáttur í að fólk sé ekki að greiða hærri orkureikning en því beri og jafnframt að fara vel með þá auðlind sem heita vatnið er.

Áætlun fyrir næsta ár
Í ljósi aflesturs á haustin er gerð áætlun um orkunotkun hvers heimilis fyrir næsta ár. Hafi aflestur leitt í ljós aukna notkun miðað við áætlun hækkar Norðurorka áætlun fyrir næstu tólf mánuði og orkureikningur hækkar sem því nemur. Að sama skapi lækkar áætlun fyrir næstu tólf mánuði og þar með fjárhæð orkureiknings ef notkun reynist minni en áætlað hafði verið.

Bylgja hvetur orkunotendur til þess að láta Norðurorku vita verði fyrirsjáanleg frávik í orkunotkun, því þá sé unnt að breyta áætlun um orkunotkun heimilisins og þar með fjárhæð orkureikningsins. Dæmi um þetta er t.d. ef fólk kaupir rafmagnsbíl í stað ökutækis sem er knúið jarðefnaeldsneyti. Rafmagnsbíll krefst hleðslu sem þýðir aukna orkunotkun á viðkomandi heimili.

Nánar má sjá um aflestur nýrra stafrænna hitamæla í eldri frétt á heimasíðu okkar, sjá hér.