Íbúar Hauganess og nágrennis hafa ef til vill orðið varir við starfsfólk Norðurorku við Ytri Vík að undanförnu. Ástæðan er sú að jarðhitaleit stendur nú yfir á svæðinu.
Upphaf jarðhitaleitar í og við Ytri Vík hófst árið 1994 að frumkvæði landeiganda Ytri Víkur, Sveins í Kálfskinni. Í framhaldinu voru boraðar þrettán grunnar hitastigulsholur í landi Ytri Víkur, Víkurbakka, Sólbakka og Syðri Haga. Haustið 1996 var svo hola YV-14 boruð sem er 182 m djúp og heppnaðist vel þar sem hún gaf 10 l/s í sjálfrennsli af um 77°C heitu vatni. Heitt vatn úr YV-14 var notað á nærliggjandi bæjum en einnig var lögð lögn að Kálfsskinni og Hátúni.
Norðurorka keypti jarðhitaréttindin og hitaveituna árið 2015 og í kjölfarið var ný vinnsluhola YV-20 boruð haustið 2017 þar sem eldri vinnsluhola var orðin ónothæf. Holan er 264 m djúp og heppnaðist vel þar sem hún gaf við borlok 12,9 l/s af 84°C heitu vatni í sjálfrennsli. Hola YV-20 er í dag notuð sem vinnsluhola fyrir hitaveituna á svæðinu. Ákveðið var að kenna nýja vinnslusvæðið við Ytri Haga en það er gamalt eyðibýli í landi Syðri Haga.
Áframhaldandi rannsóknir
Íslenskar Orkurannsóknir (ÍSOR) hafa í samstarfi við Norðurorku séð um áframhaldandi rannsóknir á svæðinu og framkvæmt meðal annars segulmælingar á yfirborði og á sjó. Allt bendir til þess að hægt sé að vinna mun meira heitt vatn á svæðinu og stendur til að bora djúpa vinnsluholu. Til þess að staðsetja hana sem best var ákveðið samkvæmt ráðleggingum ÍSOR að bora tvær 500 m djúpar rannsóknarholur og er önnur í landi Syðri Haga en hin í landi Sólbakka. Norðurorka samdi við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða um borun holanna en borun hófst í byrjun desember 2023 og stendur enn yfir. Báðar holurnar eru boraðar með 10°C halla.
Lítið er vitað um framtíðar-afkastagetu svæðisins að Ytri Haga að svo stöddu. Líkt og fram kemur hér að ofan gefur hola YV-20, sem nú þegar er í notkun 12,9 l/s af 84°C heitu vatni í sjálfrennsli. Til samanburðar má nefna að hámarksdæling vinnslusvæðisins á Hjalteyri (sem er helsta vinnslusvæði Norðurorku) 215 l/s en það svæði er sérlega gjöfult.
Ef áætlanir ganga eftir verður byggð dælustöð og tankur í landi Syðri Haga og þaðan lögð lögn til Hjalteyrar til að koma vatninu áfram til Akureyrar og nágrannasveitarfélaga.
Hvað er hitastigulshola?
Hitastigulsboranir eru notaðar til að leita að jarðhita þar sem engin yfirborðsummerki eru. Bora þarf í berg þannig að hver hola er að jafnaði um 50-100 metra löng, allt eftir því hve langt er í bergið.
Hvað eru segulmælingar?
Gerðar eru segulmælingar á yfirborði til að leita eftir sprungum neðanjarðar og finna stefnuna á þær. Áður fyrr voru segulmælingar gerðar fótgangandi en í dag eru segulmælingar gerðar með drónum.
Opnunartími í afgreiðslu:
Alla virka daga kl. 8-12 og 13-15
Opnunartími þjónustuborðs:
Mánudag til fimmtudags kl. 8-12 og 13-16
Föstudag kl. 8-12 og 13-15:20