Heita vatnið

Hvernig sýni ég ábyrga orkunotkun þegar kemur að heitu vatni?

Á undanförnum árum hefur verið stöðugur vöxtur í heitavatnsnotkun Akureyringa. Því hefur hitaveitan þurft að vera á fullum afköstum yfir köldustu vetrardagana. Heitt vatn er ekki óþrjótandi auðlind og mikilvægt er að ganga vel um hana. Öll getum við lagt okkar að mörkum með því að vera meðvituð um eigin orkunotkun og fara sparlega með heita vatnið.

Heiti potturinn

Fátt er betra en að hlamma sér í heitan pott. Þar gildir þó að vera ábyrgur í sinni orkunotkun og sleppa því að fylla á heita pottinn yfir köldustu dagana. Sér í lagi ef aðeins er um að ræða tíu mínútur í pottinum, þá er sturtan heppilegri kostur. 

Snjóbræðslan

Í kuldatíð eru ekki alltaf forsendur fyrir snjóbræðslu vegna mikillar orkuþarfar. Með nákvæmari stýringu á snjóbræðslu allt árið um kring næst berti árangur auk þess sem hún veldur minna álagi. Þannig lækkar einnig orkureikningurinn. 

Opnir gluggar

Förum vel með varmann, athugum með þéttingar á gluggum og hurðum og tryggjum að hitakerfið sé að virka rétt. Ef við þurfum að lofta út er betra að hafa glugga vel opinn í 10 mín. og loka honum svo í stað þess að hafa gluggann opinn allan daginn. 

Hvernig er orkunýtingin á þínu heimili?

Hvar fæ ég tilkynningu um að tímabundið verði skrúfað fyrir heitt vatn vegna framkvæmda?

Við viðhald og framkvæmdir kemur fyrir að skrúfa þurfi fyrir vatn í götum eða hverfum. Mínar síður er ein af okkar helstu upplýsingaleiðum. Því mælum við með að þú skráir farsímanúmer og netfang þar inn til að við getum sent þér skilaboð ef á þarf að halda t.d. vegna þjónusturofs. Er þitt númer skráð? Kannaðu málið á minarsidur.no.is

Hvaðan kemur heita vatnið í þjónustusvæði Norðurorku?

Vinnslusvæði Norðurorku eru tólf talsins. Ellefu þeirra eru nýtt til hitaveitu í Eyjafirði og eitt til hitaveitu í Fnjóskadal og á Grenivík. Hér má sjá nákvæmar upplýsingar um vinnslusvæði hitaveitu. 

Þess má þó geta að Hjalteyrarsvæðið, sem virkjað var árið 2002, gefur um 60% af hitaveituvatni Akureyringa. Ástæða mikillar afkastagetu jarðhitakerfisins við Hjalteyri er talin sú að lekt bergs sé betri og aðstreymi vatns greiðara en þekkist á öðrum vinnslusvæðum Norðurorku. Þetta má væntanlega rekja til sprungumyndunar af völdum jarðskjálfta í brotabeltinu við utanverðan Eyjafjörð. Þar af leiðandi er afkastageta jarðhitakerfisins við Hjalteyri mun meiri en annarra jarðhitasvæða sem Norðurorka nýtir.

Það er heitavatnslaust, hvers vegna?

Mögulega er íbúi eða iðnaðarmaður búinn að loka fyrir heitt vatn vegna framkvæmda eða viðgerða í húsinu. Svo getur hugsast að við séum að vinna í hverfinu þínu og þá ætti skráður eigandi veitu að hafa fengið tilkynningu (sms og tölvupóst) um það, nema um skyndilega bilun sé að ræða. Upplýsingar um þjónusturof birtast einnig hér á vefsíðu Norðurorku undir flipanum Þjónusturof í dag. Við mælum með að skráður eigandi veitu skrái símanúmer og netfang inn á mínar síður. Þannig tryggjum við öruggt upplýsingaflæði t.d. í tenglsum við þjónusturof vegna framkvæmda. Ef skráður eigandi er ekki með síma eða tölvu þá getur náinn aðstandandi skráð sitt símanúmer og netfang í staðinn og þá miðlað upplýsingum til húsráðenda þegar tilkynningar berast.

Hvert á að tilkynna leka á heitu vatni?

Leka á heitu vatni utanhúss skal tilkynna tafarlaust í síma 460 1300 (innan dagvinnutíma). Utan dagvinnutíma skal hringja í síma 892 7305.

Bilanir innanhúss eru oftast á verksviði iðnaðarmanna. Ef þú ert í einhverjum vafa er þér velkomið að hringja í okkur og við leiðbeinum þér eftir bestu getu. 

Hvernig er hægt að draga úr líkum á vatnstjóni?

Verjumst vatnstjóni er bæklingur sem gefinn var út af samstarfshópi um varnir gegn vatnstjóni. Í honum eru ýmsar gagnlegar upplýsingar sem við mælum með að sem flestir kynni sér. 

Opna bækling

 

Hvernig les ég af stafrænum mæli hitaveitu?

Leiðbeiningar fyrir álestur stafrænn orkumæla: 

Upphafsskjámynd mælis sýnir kWh (kílóvattstundir) en þá er búið að reikna út orkuígildi vatnsins.

Stafrænn orkumælir

Með því fletta einu sinni til hægri (sjá bláan hring á mynd hér að neðan) má sjá rúmmetrastöðu mælis, þ.e. magn vatns (m3) sem runnið hefur í gegn.

Stafrænn orkumælir

Ef haldið er áfram að fletta til hægri má einnig sjá hitastig vatnsins. 
Hægt er að fara til baka með því að ýta á vinstri örvarhnappinn en ef mælirinn er látinn ósnertur í fjórar mínútur þá fer hann aftur í upphafsstöðuna sem sýnir orkuígildið (kWh).

Sjá frekari leiðbeiningar á heimasíðu Kamstrup

Hvað er bakrásarhiti?

Bakrásarhiti er hitastig vatnsins sem rennur frá ofni. Ef bakrásarhiti er of hár er heita vatnið ekki nógu vel nýtt og sóun á sér stað. Eðlilegur bakrásarhiti er háður útihita. Sem dæmi má nefna að við 0 °C útihita er æskilegt hitastig á vatni frá ofni 27 °C. 

  • Æskilegur bakrásarhiti að sumarlagi ætti ekki að vera hærri en 22-25 °C.
  • Æskilegur bakrásarhiti að vetrarlagi ætti ekki ekki að vera hærri en 30-35 °C. 

Aðrir flokkar