Jarðhitasvæðið við Botn í Eyjafirði hefur verið nýtt til hitaveitu í meira en fjóra áratugi. Þar eru tvær vinnsluholur, 1830 og 1050 metra djúpar, en lengi hefur verið talið að jarðhitakerfið geti staðið undir aukinni orkuvinnslu. Borun nýrrar og vel heppnaðrar vinnsluholu á svæðinu myndi jafnframt hafa þann kost að þeir innviðir hitaveitunnar, sem þegar eru til staðar á svæðinu, yrðu nýttir enn betur en nú er. Með aukinni orkuvinnslu á Botni mætti þannig mæta vaxandi orkuþörf í Eyjafirði um hríð á hagkvæman og skynsamlegan hátt. Norðurorka hefur því undanfarin misseri staðið fyrir rannsóknum sem hafa það að markmiði að undirbyggja megi sem best staðsetningu nýrrar vinnsluholu á svæðinu.
Jarðfræðilegar misfellur kortlagðar með segulmælingum
Talið hefur verið að meginuppstreymi jarðhitakerfisins sé einhvers staðar undir um 100 metra þykkri setfyllu sem hylur botn Eyjafjarðardals. Jarðhitaleit við slíkar aðstæður er vandasöm og dýr og á það bæði við um yfirborðsmælingar og boranir með rannsóknarholum. Af þeim sökum hefur ekki verið lagt í þá jarðhitaleit fyrr en nýlega. Í fyrra voru sjö rannsóknarholur boraðar í setlögin í samstarfi við Finn ehf. og ÍSOR, á bökkunum austan Eyjafjarðarár til móts við Botn og Stokkahlaðir. Tilgangurinn var að mæla hita og hitastigul í setfyllunni og ákvarða þykkt hennar. Holurnar eru 50-115 m djúpar og flestar fóðraðar niður í botn svo að þær haldist opnar. Í febrúar og mars síðastliðnum voru síðan boraðar fjórar rannsóknarholur utan setfyllunnar, vestan Eyjafjarðarár, við Botnsreit og Stokkahlaðir. Í ljósi hitamælinga úr þessum holum þótti skynsamlegt að næsta skref í jarðhitaleit við Botn fælist í segulmælingum, þ.e.a.s. mælingum á segulsviði jarðar og breytingum á því. Með slíkum mælingum er hægt að kortleggja jarðfræðilegar misfellur eins og misgengi og bergganga sem leynast hulin undir jarðvegi eða lausum yfirborðslögum en slíkum fyrirbærum fylgja oft jarðhitasprungur.
Drónar tímasparandi nýjung við framkvæmd segulmælinga
Segulmælingar eru gerðar á yfirborði og lengi vel fóru þær þannig fram að gengið var með mælinn eftir fyrirfram útlögðum mælilínum og var segulneminn hafður á stöng í ákveðinni hæð yfir jörðu. Undanfarin ár hefur ÍSOR notast við dróna til þessara mælinga og er það mikill tímasparnaður þar sem hægt er að mæla stór svæði á skömmum tíma. Fimmtudaginn 16. október síðastliðinn var dróna með segulmæli flogið yfir tæplega 800 m breitt svæði sem nær u.þ.b. frá Húsaflöt í norðri og rétt suður fyrir Maríuhólma. Um er að ræða glænýjan mæli og dróna sem ÍSOR festi kaup á nú í haust og eru mælingarnar við Botn þær fyrstu sem þessi tækjabúnaður er notaður í. Vonir standa til um að segulmælingarnar geti varpað frekara ljósi á legu sprungna og/eða bergganga sem leynast hulin undir setfyllunni í dalnum og þannig aukið skilning okkar á jarðhitakerfinu. Svo gæti þó farið að upplausnin verði ekki ýkja mikil vegna mikillar setþykktar en engu að síður þykir skynsamlegt að láta á það reyna.
Frekari fróðleikur um heita vatnið á starfssvæði Norðurorku:
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15