14. jún 2023

Vísindaskóli unga fólksins

Fróðleiksfúsir nemendur í Vísindaskóla unga fólksins í heimsókn í hreinsistöðinni við Sandgerðisbót.…
Fróðleiksfúsir nemendur í Vísindaskóla unga fólksins í heimsókn í hreinsistöðinni við Sandgerðisbót.
Mynd: Páll Hallfreður Árdal

Norðurorka tekur þátt í Vísindaskóla unga fólksins, sem nú er í fullum gangi, auk þess að vera bakhjarl skólans frá stofnun hans árið 2015. Vísindaskólinn, sem starfræktur er á vegum Háskólans á Akureyri, veitir ungmennum á aldrinum 11-13 ára fjölbreytta og skemmtilega fræðslu sem víkkar sjóndeildarhringinn.

 

Eitt af námskeiðum skólans í ár ber yfirskriftina Vatnið er verðmæti. Gunnur Ýr Stefánsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu forstjóra, hjá Norðurorku, fræðir ungmennin um vatnið okkar og hvernig við getum öll verið ábyrg í orkunotkun. Í framhaldinu heimsækja þátttakendur námskeiðsins nýju hreinsistöðina í Sandgerðisbót. Þar tekur Anna María Sigurðardóttir, starfsmaður á teiknistofu Norðurorku, á móti hópnum og veitir fræðslu um fráveitukerfið. Á námskeiðinu er ýmsum áleitnum spurningum velt upp: Er heita vatnið endalaust, er klósettið ruslafata, hvernig kom það til að fráveita var lögð við hvert hús í bænum? Öllum þessum spurningum og fleirum til er svarað í Vísindaskóla unga fólksins og er óhætt að fullyrða að vikan hafi verið skemmtileg og fjölbreytt fyrir nemendur sem og kennara.