Kalda vatnið

Hvað er vatnsverndarsvæði?

Gerðar eru strangar kröfur um vatnsvernd á Íslandi enda flokkast kalda vatnið sem matvara. Kalt neysluvatn er sótt á skilgreind vatnsverndarsvæði þaðan sem það rennur óhindrað í dælustöðvar í þéttbýli sem koma því áfram til neytenda. 

Vatnsverndarsvæði eru skilgreind svæði umhverfis vatnsból og vinnslusvæði.

Innan vatnsverndarsvæða gilda strangar reglur skv. reglugerðum. Vatnsverndarsvæði skiptast í þrennt: brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði.

  • Brunnsvæði er í næsta nágrenni vatnstökustaðar og er algjörlega friðað fyrir óviðkomandi umferð, framkvæmdum og starfsemi nema á vegum vatnsveitunnar.  
  • Grannsvæði tekur við að brunnsvæði og ákvarðast stærðin af viðkvæmni svæðisins með tilliti til t.d. lektar og sprungna. Allar framkvæmdir sem ógnað geta öryggi vatnsöflunar eru bönnuð.
  • Fjarsvæði er aðal ákomusvæði fyrir grunnvatnsstrauma og öll nýting lands þarf að falla að forsendum vatnsverndar. 

Eitt af stóru verkefnum Norðurorku er að tryggja nægilegt magn af hreinu og góðu neysluvatni til einstaklinga og fyrirtækja á veitusvæðinu. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur eftirlit með neysluvatninu og sömuleiðis er vinnsla og dreifing vöktuð í samræmi við vottað gæðakerfi Norðurorku

Sjá nánar um vatnsverndarsvæði Norðurorku hér.

 

 

Hvernig sýni ég ábyrga orkunotkun þegar kemur að köldu vatni?

Íslendingar nota mjög mikið af vatni og er óhætt að segja að við verðum oft kærulaus við notkunina og látum vatnið renna að óþörfu. En hvernig getum við sýnt ábyrga orkunotkun þegar kemur að köldu vatni? 

Tannburstun

Skrúfum fyrir vatnið þegar við burstum tennurnar. Rennsli í þrjár mínútur kvölds og morgna í heilt ár eru um 20.000 lítrar.

Lagaðu sírennslið

Á einu ári fara um 500.000 lítrar af vatni í súginn í gegnum klósett sem lekur einum lítra á mínútu. Lekur krani getur dropað um 15 lítrum á dag eða 5.500 lítrum árlega. 

Geymdu vatn í ísskápnum

Kældu vatn í flösku í ísskápnum í stað þess að láta vatnið kólna úr krananum. 

Hvernig gengur þú um kalda vatnið?

Hvar fæ ég tilkynningu um að það verði tímabundið skrúfað fyrir vatn vegna framkvæmda?

Við viðhald og framkvæmdir kemur fyrir að skrúfa þurfi fyrir vatn í götum eða hverfum. „Mínar síður“ er ein af okkar helstu upplýsingaleiðum. Því mælum við með að þú skráir farsímanúmer og netfang þar inn til að við getum sent þér skilaboð ef á þarf að halda t.d. vegna þjónusturofs. Er þitt númer skráð? Kannaðu málið á minarsidur.no.is

Hvert á að tilkynna leka á köldu vatni?

Leka á köldu vatni utanhúss skal tilkynna tafarlaust í síma 460 1300 (innan dagvinnutíma). Utan dagvinnutíma skal hringja í síma 892-7305.

Bilanir innanhúss eru oftast á verksviði iðnaðarmanna. Ef þú ert í einhverjum vafa er þér velkomið að hringja í okkur og við leiðbeinum þér eftir bestu getu.

Hvernig er hægt að draga úr líkum á vatnstjóni?

Verjumst vatnstjóni er bæklingur sem gefinn var út af samstarfshópi um varnir gegn vatnstjóni. Í honum eru ýmsar gagnlegar upplýsingar sem við mælum með að sem flestir kynni sér. 

Opna bækling

Klárast kalda vatnið einhvern tímann?

Vatnið hringrásar um jörðina og það er sama vatnið frá örófi alda sem hringrásar. Vatnið gufar upp úr sjónum, myndar ský, þéttist og fellur til jarðar sem rigning eða snjór, rennur á yfirborði eða lekur niður í jarðlögin og verður þar að grunnvatni og rennur síðan til sjávar. Það er sólin sem knýr hringrásina áfram.

Vatn er endurnýjanleg auðlind, því hún endurnýjar sig stöðugt þegar tekið er af henni. Það verður því að teljast harla ólíklegt að vatnið klárist, þó að vissulega geti gengið á auðlindina í miklum þurrkum til dæmis.

Hver er mælieining vatns?

Mælieining vatns er rúmmetri, táknuð með m3. Einn rúmmetri jafngildir 1000 lítrum sem jafngildir 1 tonni.

Hvaðan kemur kalda vatnið sem Akureyringar drekka?

Vatnið sem Akureyringar drekka kemur frá vatnsverndarsvæðunum í Hlíðarfjalli (Hesjuvallalindum og Sellandslindum, hvorar sínum megin við skíðasvæðið) og frá Vöglum í Hörgársveit.

Hér má finna upplýsingar um vatnsverndarsvæði Akureyringa, ásamt upplýsingum um önnur vatnsverndarsvæði Norðurorku.

Hver er harka vatns og hvað þýðir það?

Þegar talað er um hörku vatns er magn kalsíum og magnesíum í vatninu mælt.

Gróflega áætlað er skali dH° (þýskrar hörkueiningar) eftirfarandi:
0-4dH°= mjög mjúkt vatn
4-8°dH = mjúkt
8-12°dH = aðeins hart
12-18°dH = nokkuð hart
18-30°dH = hart
>30°dH = mjög hart

Á Íslandi er harka vatns á bilinu 0,93 til 1,55°dH og lítið er af uppleystum steinefnum í vatninu. Íslenskt vatn er því mjög mjúkt.

Harka neysluvatnsins á Akureyri er u.þ.b. 1.1 Degrees Clark (eða 15,2 - 15,7 mg/L)

Í töflunni hér að neðan má sjá mismunandi mælieiningar á hörku vatns og tengslin á milli þeirra. 

 

Harka vatns - ýmsar mælieiningar (Hægt er að smella á myndina til að stækka hana)

Aðrir flokkar